Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þingmanni varð tíðrætt um það sem er ódýrt og ómerkilegt verð ég að segja að það er ótrúlega ódýrt og ómerkilegt hjá hv. þingmanni að halda því fram að ég hafi líkt einhverju því sem hér gerðist við umferðarlagabrot. Það sem ég var að vekja athygli á var armslengdin sem sköpuð er með lögum um Bankasýsluna og að ef það hefur gerst í meðferð söluráðgjafa að þeir hafi farið á svig við lög þá sé mjög langsótt að heimfæra ábyrgð á því undir ráðherrann, einhvern sem ber pólitíska ábyrgð, með svipuðum hætti og þeim sem ég nefndi. Að segja mig með þessu líkja umferðarlagabroti við eitthvert lögbrot við framkvæmd á sölu eignarhluta ríkisins er ódýrt og ómerkilegt. Ég vísa því bara beint til föðurhúsanna.

Í öðru lagi ætla ég að fá að vísa í það sem ríkisendurskoðandi hefur tekið fram um þessa athugun. Í fyrsta lagi ætla ég að vísa í fréttatilkynningu Ríkisendurskoðunar um skýrsluna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Úttektinni er ætlað að varpa ljósi á undirbúning og framkvæmd sölu eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka og einna helst þá atburðarás sem átti sér stað á söludegi, 22. mars 2022. Hún tekur þannig til þess hvernig staðið var að sölu umrædds eignarhluta út frá lögum …“

Hér ætla ég að ljúka tilvitnun en síðar segir í inngangskafla skýrslunnar:

„Leitast var við að leggja mat á framkvæmdina og svara eftirfarandi spurningum:

1. Hvernig samræmdist framkvæmd sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022 ákvæðum laga nr. 155/2012 um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum …“ — o.s.frv.

Hvernig stendur á því að menn reyna að toga lopann svona og teygja og snúa út úr og setja allt á rönguna og halda því fram að þessi atriði hafi ekki verið skoðuð með einhverjum einföldum tilvitnunum í inngangskafla skýrslunnar þar sem er augljóslega verið að vísa í þau atriði sem er fyrir utan valdsvið ríkisendurskoðanda að skoða?