131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[14:56]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það krefst jafnaðargeðs að hlusta á þá ræðu sem formaður utanríkisnefndar Alþingis flutti hér áðan og þá ekki síður að bregðast við.

Í fyrsta lagi vil ég segja að engin mótsögn felst í því annars vegar að óska eftir þeim upplýsingum sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði í utanríkismálanefnd og hins vegar að krefjast þess að sett verði á fót sérstök rannsóknarnefnd sem kanni þessi mál.

Þegar hv. þm. síðan fullyrðir að um ástæður fyrir stuðningi Íslands við hernaðarárásina í Írak þurfi ekki að fjölyrða, þá heyrist hér rödd sem er mjög einmana í heiminum í dag. Við vitum hvað gerðist. Bandaríkin og Bretland réttlættu þessa árás á grundvelli lyga. Nú er það komið í ljós. Það voru lygar. Ef hv. (Forseti hringir.) formaður utanríkismálanefndar Alþingis ætlar að afgreiða Alþingi Íslendinga (Forseti hringir.) með þessum hætti, þá er illa komið.