133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

357. mál
[16:08]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins til viðbótar við þetta efni sem hér var rætt þá langar mig að fá upplýst hvort ráðherra hafi um það dæmi eða tölur hversu mörg brot sé um að ræða og hversu mörg mál hafi komið upp í þessu sambandi.

Að öðru leyti vil ég taka undir það að hér er áfram um að ræða tímabundna lækkun á fjárhæð olíugjalds, að hún verði framlengd. Ég tel eðlilegt og tek undir það að ekki er annað að sjá en að meginefni frumvarpsins sé til bóta og að eðlilegt sé að framlengja gjaldið eins og það er um eitt ár.

Hæstv. ráðherra nefndi brotin og ég hefði viljað að hann gæti upplýst mig um hvort mikil tilhneiging hafi verið til þess að brjóta þessi lög, þ.e. hvaða upplýsingar ráðherrann hefur í þeim efnum.