154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

mótvægisaðgerðir fyrir Grindvíkinga.

[13:38]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið og tek fram að það er ánægjulegt að heyra að það sé strax farið að ráðast í þetta verkefni. Við í Samfylkingunni höfum verið að horfa til þessarar leiðar sem við þekkjum úr Covid og auðvitað eigum við ekki að vera að finna upp hjólið aftur. Ég hefði líka haldið að það væri einmitt sniðugt að fara í þessi verkefni í samvinnu við fyrirtækin til að stakir launþegar og einstaklingar þurfi ekki að vera að standa í stappi við kerfið og Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er bara nógu mikið áfall sem orðið hefur og praktísku atriðin eiga ekki að hvíla á einstaklingunum. Þannig að það er auðvitað að mörgu leyti eðlilegt að það fari í gegnum stærri einingar.

Mig langar hins vegar að spyrja í þessu samhengi, í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra talaði um frumvarp sem væri verið að vinna að, af því að tímafaktorinn er auðvitað stór í þessu samhengi og við heyrum ákall, eins og e.t.v. hæstv. forsætisráðherra, frá verkalýðshreyfingunni um að fólk fái skilaboð hratt og örugglega um hvert umfang þessara aðgerða sé. Ég vildi heyra frá hæstv. ráðherra, ef hún gæti svarað okkur, hversu hratt sé hægt að gera þetta. Samfylkingin mun að sjálfsögðu liðka fyrir þeirri afgreiðslu.