135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

staða kjarasamninga sjómanna á smábátum.

238. mál
[18:02]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram er komið hefur hv. þm. Grétar Mar Jónsson lagt fyrir mig fyrirspurn í tveimur liðum um stöðu kjarasamninga sjómanna á smábátum. Fyrirspurnin snertir mikilvægt mál sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.

Nú er það svo að samtök sjómanna og útgerðarmanna hafa í tímans rás kosið að sækja sín mál til sjávarútvegsráðherra. Gildir þá einu hvort um er að ræða ánægju eða óánægju með stefnuna sem fylgt er við stjórn fiskveiða, um menntun og endurmenntun sjómannastéttarinnar eða kaup og kjör og stöðu kjarasamninga. Það kemur samt ekki í veg fyrir að ég geti tjáð mig um málefnið sem fyrirspurnin fjallar um.

Ég vil strax taka fram varðandi fyrri hluta fyrirspurnarinnar að mér finnst slæmt að hópur á vinnumarkaði sé án gildandi kjarasamninga. Með seinni hluta fyrirspurnarinnar leitar fyrirspyrjandi eftir afstöðu minni til þess hvort rétt sé að láta kanna réttarstöðu sjómanna á smábátum sem eru án kjarasamninga.

Varðandi þann hluta fyrirspurnarinnar vil ég segja eftirfarandi. Eins og ég gat um eru málefni sjómanna ekki á mínu borði en ég hef kynnt mér réttarstöðu þeirra. Mér virðist að réttarstaða sjómanna á smábátum sé að flestu leyti skýr. Um þá gilda sjómannalög. Þar er kveðið á um réttindi og skyldur aðila, t.d. um öryggismál, aðbúnað, vistarverur, fyrirkomulag á greiðslu kaups o.s.frv. Með lögum nr. 31/2003 voru tekin upp í sjómannalögin ákvæði vinnutímatilskipunar ESB um skipan vinnutíma sjómanna um borð í fiskiskipum. Sjómenn, eins og aðrar stéttir, njóta lágmarksréttinda samkvæmt orlofslögum. Þeir eru slysatryggðir við vinnu sína og falla undir lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Engu að síður tel ég ástæðu til, er reiðubúin til þess, að fara yfir réttarstöðu sjómanna á smábátum með hagsmunaaðilum í samráði við sjávarútvegsráðherra og taka þá allt upp á borðið, athuga hvort eitthvað standi þar út af sem ástæða er til að skoða sérstaklega.

Varðandi kjarasamninga er ljóst að umræddur hópur er án kjarasamninga og þannig hefur það verið. Ástæðan er m.a. sú að á bátunum hafa verið einn til tveir menn, oftast eigandinn með annan með sér. Að vísu mun vera í gildi samningur á Höfn í Hornafirði og einhvers konar samkomulag í Bolungarvík. Það mun vera að breytast með breytingum á stærðarmörkum. Þeim bátum hefur því fjölgað þar sem tveir til fjórir eru í áhöfn og allir ráðnir, þ.e. útgerðarmaðurinn eða eigandinn er ekki í áhöfninni.

Staðreynd er að fulltrúar Sjómannasambands Íslands hafa lengi reynt að ná samkomulagi við Landssamband smábátaeigenda og drög að samkomulagi munu hafa verið tilbúin til undirritunar fyrr á þessu ári en af undirritun hefur ekki orðið. Komið hefur fram í samtölum við hagsmunaaðila að formlegur samningafundur er fyrirhugaður 4. desember næstkomandi.

Reynslan hefur sýnt okkur að samningar sjómanna og útgerðarmanna eru flóknir og viðræður um þá tímafrekar. Oftar en ekki hafa slíkar viðræður endað í hörðum hnút þar sem gripið hefur verið til þeirra vopna sem lög heimila, þar á meðal verkfalla. Reynslan sýnir okkur einnig að sjómannaverkföll hafa reynst torleyst og langvinn. Aðilar hafa haldið fast við sitt og því miður hefur allt of oft gerst að horft hefur verið til stjórnvalda um að þau höggvi á hnútinn. Gott dæmi um þetta er inngrip stjórnvalda í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna árið 2001 sem lauk með setningu laga nr. 34/2001. Alþýðusamband Íslands, Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands kærðu lagasetninguna til Alþjóðavinnumálastofnunar sem brot á samþykktum stofnunarinnar.

Virðulegi forseti. Ljóst er að alþjóðlegar skuldbindingar takmarka mjög svigrúmið sem stjórnvöld hafa til að grípa inn í eða til að hafa afskipti af kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Ekki verður annað séð en að aðilar séu sáttir við þann lagaramma sem gildir um kjarasamninga og lausn á vinnudeilum. Niðurstaða mín er sú að við hljótum að gera þær kröfur að samningsaðilar leysi sjálfir vandamálið. Búið er að ganga þá götu til enda sem felst í því að keyra málið í hnút og ætlast síðan til að ríkisstjórn eða Alþingi leysi málið.