136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[19:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessar upplýsingar, þær skipta vissulega máli. Áhyggjurnar eru eftir sem áður þær að ríkisstjórnin virðist ekki ætla sér að fara þá leið sem ein er rétt að lögum og það er að gömlu bankarnir séu settir í gjaldþrot, því að þeir eru gjaldþrota og eiga að fara í gjaldþrot. Menn hafa haldið því fram að sú lagasetning sem fram fór hér í síðustu viku til þess að gefa þeim kost á að starfa í tvö ár, ekki mætti höfða mál á hendur þeim þann tíma, væri brot á stjórnarskránni og menn hefðu jafnvel brotið stjórnarskrána vitandi vits.

Það er áhyggjuefni ef þessar skuldbindingar eiga að hanga á bönkunum og flytjast þá — ef gömlu bankarnir eiga ekki að fara í þrot — væntanlega eins og eignir yfir í nýju bankana eða maður skyldi ætla það. Nýju bankarnir munu þá taka þessar skuldir með sér inn í framtíðina. Er það ekki rétt skilið hjá mér, hæstv. fjármálaráðherra?