150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:39]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í fjárlögunum á að skera niður endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar um 30%. Sú áhersla stjórnvalda er ótrúlega skammsýn og í raun vitlaus. Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda koma á framfæri mjög alvarlegum athugasemdum við þá staðreynd. Kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerð skiptir Ísland miklu máli og hver króna skilar sér margfalt til baka.

Við síðustu fjárlagagerð lagði Samfylkingin til breytingartillögu um aukna fjármuni í svokallaðan sjónvarpssjóð. Sú tillaga var felld af öllum þingmönnum VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Ég trúi ekki að sömu þingmenn ætli að fella tillögu okkar um að tryggja nauðsynlega fjármuni til endurgreiðslu kvikmyndagerðar. Það er bæði góð hagfræði og góð pólitík að styðja betur við menningarstarfsemi á borð við sjónvarpsefnis- og kvikmyndagerð. Þessi tillaga okkar býr beinlínis til peninga eins og menningin gerir svo oft.