154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Málefni fatlaðs fólks.

[15:56]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir frumkvæðið að umræðu um þetta mikilvæga málefni. Það er að mörgu að huga þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks en í dag langar mig að ræða beitingu nauðungar í þjónustu við geðfatlað fólk. Hér á landi er nauðung ítrekað beitt í geðheilbrigðisþjónustu og eru skýringarnar á því iðulega þær að aðstæður bjóði einfaldlega ekki upp á að því verði hætt, að það sé ekki hægt að veita geðheilbrigðisþjónustu án þvingana. Þá liggur fyrir að eðli, umfang og áhrif þvingaðrar meðferðar á Íslandi er lítt þekkt og hefur skráningu og eftirliti með henni hér á landi verið verulega ábótavant og er enn þrátt fyrir ábendingar.

Forseti. Þetta er grafalvarleg staða. Rannsóknir sýna að beiting þvingunar við meðferð geðraskana hefur verulegar neikvæðar afleiðingar fyrir þá einstaklinga sem eru beittir henni. Meðferðir gegn vilja viðkomandi, svo sem þvinguð lyfjagjöf, eru taldar sérstaklega skaðlegar andlegri vegferð einstaklings. Þá er talið að beiting nauðungar geti haft fælandi áhrif og að fólk sem þarf aðstoð forðist jafnvel að leita hennar af ótta við að verða beitt slíkri nauðung.

Árið 2019 gaf Evrópuráðsþingið út skýrslu og samþykkti í kjölfarið ályktun um að binda endi á nauðung í meðferð geðheilbrigðismála í álfunni. Til þess þurfa ríki að endurhugsa geðheilbrigðiskerfi sín, m.a. út frá alþjóðlegum skuldbindingum aðildarríkja, svo sem samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í samningnum segir m.a. að aðildarríkin skuli tryggja að fatlað fólk sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæm og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.

Í mörg ár hefur verið kallað eftir því að íslensk stjórnvöld lögfesti samning Sameinuðu þjóðanna en enn dregur ríkisstjórnin lappirnar. (Forseti hringir.) Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé m.a. vegna þess að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að taka (Forseti hringir.) nægilega stór skref í átt að því að binda endi á beitingu nauðungar í heilbrigðisþjónustu hér á landi.