154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Málefni fatlaðs fólks.

[16:05]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að hefja þessa nauðsynlegu umræðu og hæstv. ráðherra Guðmundi Inga Guðbrandssyni fyrir að vera með okkur hér í dag. Staðan í málefnum fatlaðra er virkilega döpur, svo ekki sé meira sagt. Fatlað fólk hefur alltaf átt undir högg að sækja og við höfum gjarnan litið niður á það eins og tíunda flokks þjóðfélagsþegna, í það minnsta er það nákvæmlega þannig sem er komið fram við fatlað fólk. Hér tala ég af eigin reynslu. Það er sárara en tárum taki að horfa á fólk í blóma lífsins sem verður veikt eins og náinn aðstandanda minn, 62 ára gömul kona, sem hefur þurft að leita sér lækninga. Úrræði fyrir hana núna er að setja hana á Hrafnistu, á hjúkrunarheimili með gömlu fólki sem hún á enga samleið með.

Við kvótasetjum réttindi fatlaðs fólks til þjónustu, langveiks fatlaðs fólks. Við kvótasetjum NPA-samningana, notendastýrða persónulega aðstoð. Þetta er til slíkrar háborinnar skammar og svo eru dregnar lappirnar í því að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem ég og Flokkur fólksins höfum mælt fyrir þrisvar síðan við komum á Alþingi Íslendinga haustið 2017. Það eru engar afsakanir sem þessi ríkisstjórn gæti lagt fram sem réttlæta það að hafa ekki þegar löggilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er ekki nóg að fatlað fólk hrópi og kalli: Ekkert um okkur án okkar, því að það er enginn að hlusta. Það er alltaf verið að gera eitthvað rosalega fallegt í framtíðinni en það þarf úrræði núna. Fatlað fólk sem býr við langvarandi þjónustuþörf þarf úrræði núna. Það er ekki nóg að lofa geðheilbrigðisþjónustu, aukinni sálfræðiþjónustu þegar liggja kannski engir fjármunir að baki því þannig að sé hægt að uppfylla það. En það hefur verið skýr vilji löggjafans t.d. að koma til móts við þá (Forseti hringir.) sem búa við andlega erfiðleika og andlega fötlun.

Þannig að ég segi bara, virðulegi forseti: Það er kominn tími til að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra (Forseti hringir.) því að með þeim samningi þá gæti ríkisstjórnin ekki dregið lappirnar í því að koma til móts við þennan viðkvæma þjóðfélagshóp.