135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[16:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra gaf mér ekki fullnægjandi svör við þeim spurningum sem ég lagði fram, hvorki varðandi tekjustofnana né jafnræðisregluna. Mér nægir ekki að heyra frá hæstv. ráðherra að hér sé ekki um tekjustofn að ræða. Hér er um að ræða 100–150 millj. sem athafnamaðurinn sjálfur fær að ákveða hvernig verður varið í félagi við dagskrárstjóra Ríkisútvarpsins. Hér er beinlínis samstarf athafnamannsins og Ríkisútvarpsins þar sem athafnamaðurinn hefur dagskrárvald. Þetta er bæði valdaframsal af hálfu þeirra sem stjórna Ríkisútvarpinu og tækifæri til að búa til nýjan tekjustofn sem er ekki heimild fyrir í lögunum.

Hæstv. ráðherra svaraði engu varðandi jafnræðisregluna. Hún gaf heldur ekkert út um ummæli athafnamannsins góða, Björgólfs Guðmundssonar, varðandi það að ríkið sé einn versti eigandi fjölmiðla sem hugsast getur. Kann að vera að á bak við þau orð liggi einhvers konar löngun athafnamannsins til að ganga lengra í þessum efnum? Það er ekki að ófyrirsynju sem fólk spyr núna hvort verið sé að stíga skrefið til fulls.

Mér nægir ekki að Guðni Ágústsson komi hingað og segi að þetta séu ekki tekjur og það sé bara verið að viðhalda þarna listgrein. Satt að segja get ég gefið þá yfirlýsingu hér að höfðingsskapur Björgólfs Guðmundssonar er óumdeildur í mínum huga, hann er mikill og Björgólfur hefur látið margt gott af sér leiða, en sé hér um höfðingsskap eingöngu að ræða átti að setja þessa fjármuni í sjóð sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn hefðu getað sótt um fjármuni til á jafnréttisgrundvelli. Þá hefðu líka sjónvarpsstöðvarnar staðið á jafnréttisgrunni og þar með erum við að tala um jafnræðisreglu. (Forseti hringir.) Og hæstv. menntamálaráðherra svaraði engu um brot eða hugsanlegt brot á henni í þessu tilliti.