136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:20]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra til upplýsingar þá er ég með möppu með þingmálum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um aðgerðir til að ná stöðugleika í efnahagsmálum, sem hafa verið lögð fram frá febrúar 2005. Þannig að hér eru tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um efnahagspólitíkina sem við viljum byggja efnahagskerfi okkar á og getur hæstv. utanríkisráðherra séð af þeim á hvaða prinsippum við hefðum byggt aðgerðirnar sem hefði þurft að fara í við þær aðstæður sem nú eru uppi á Íslandi. (ÁPÁ: Er norræna krónan í þeim pakka?)

Við stöndum frammi fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra segja allt of oft í þessari umræðu hér í dag, í morgun í Morgunvaktinni og á blaðamannafundum undanfarna daga og vikur: Ég held og ég vona. Þjóðin á heimtingu á að fara að heyra: Við vitum. Við erum sannfærð. Við treystum okkur til að fullyrða.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra. Voru gerðir útreikningar á því hvernig við gætum komist í gegnum stöðuna sem við erum í núna án skilyrða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þá mögulega án láns frá honum? Ég vil fá að sjá hvaða útreikningar lágu að baki því að þessi leið var valin en ekki einhver önnur og hvaða aðrar leiðir voru þá valdar.

Ljóst er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti skilyrði um trúnað á gögnin og það þykir mér mjög miður vegna þess að ég tel að Alþingi Íslendinga og alþingismenn hefðu þurft að fá að kynna sér tillögurnar sem þar koma fram og skilyrðin miklu fyrr. Ég vil fá staðfestingu á því hjá hæstv. ráðherra um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi sett það skilyrði en ekki ríkisstjórnin sjálf.