146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[16:40]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að fá að taka til máls í umræðu um þessa þingsályktunartillögu, sem mér þykir ákaflega mikilvægt að við séum að taka til umræðu hér svo snemma. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að mér fannst hv. ráðherra slá alveg nýjan tón þegar hún mælti fyrir máli sínu þar sem hún setti þetta verkefni okkar, orkuskipti, í annað samhengi en við höfum tamið okkur kannski að tala um til langs tíma. Hún setti það í það samhengi að til þess að við myndum ná raunverulegum framförum og geta gert öllum landsmönnum kleift að taka þátt í orkuskiptum og því stóra verkefni sem við viljum sannarlega öll ráðast í, þyrftum við að bæta verulega úr dreifikerfi rafmagns um landið.

Það er nefnilega þannig, virðulegur forseti, að það er ekki öllum íbúum landsins í rauninni boðlegt eða bjóðandi að tileinka sér nýja orkugjafa, t.d. í samgöngum. Ég hugsa til íbúa á Vestfjörðum, ég hugsa til íbúa á Norðurlandi og Norðurlandi eystra og Norðurlandi öllu og víðar hér um land, að verði notkun t.d. rafknúinna ökutækja, rafmagnsbíla, almenn hér á landi í samgöngum þá er hugsanlega ekki mögulegt fyrir öll heimili landsins að hlaða bíla sína í óbreyttu ástandi. Fyrir gesti sem vilja sækja Norðlendinga eða Vestfirðinga heim og allir stinga bílum sínum í samband, þá er kannski ekki til raforkuflutningskerfi sem flytur orkuna til að hlaða bílana eins og við þyrftum að gera, nema að grípa mögulega til annarra úrræða eins og rafmagnsskömmtunar o.s.frv., sem ég er ekki að segja að sé dómsdagsspá, heldur vil ég vekja athygli á því að ákveðin vandamál eru hér undir. Ef við ætlum að ná þeim góðu áföngum sem við viljum ná þá þurfum við að hugsa um þessa hluti samhliða.

Þetta vildi ég segja að væri hinn nýi tónn sem ráðherra sló í umræðunni um orkuskiptin og fagna honum sérstaklega af því að þetta er raunverulegt vandamál sem við þurfum að takast á við, og er ekki vandamál morgundagsins heldur dagsins í dag.

Það má ýmislegt um tækifæri okkar til orkuskipta fjalla og nefni því til viðbótar, ekki bara takmarkað flutningskerfi, heldur fagna ég því hversu hátt hlutfall orku er endurnýjanlegt, segir í texta tillögunnar, um 70%. Það er náttúrlega mikið fagnaðarefni og setur okkur sem þjóð alveg á einstakan stað. Auðvitað á líka að vera hluti af þessu máli umræða um hvernig við getum sparað orku og nýtt orkuna betur sem við erum nú þegar að framleiða, og hvernig við notum raforkuna. Kannski er einhver handhægasta eða raunhæfasti virkjunarkostur okkar hér um stundir að setja upp varmadælur og varmadælukerfi við þau hús sem eru kynt með rafmagni. Þannig má losa heilmikið rafmagn og notkun hér á landi.

Ég vil líka fjalla um aðra kosti, og ræðumenn sem hér hafa komið á undan hafa heilmikið verið að nefna, t.d. orkunotkun á fiskiskipum eða skipum. Ég nefni það nú samt hér til að halda því til haga að nýjustu skip flotans spara eldsneyti eða nota mun minna eldsneyti við veiðar en við höfum áður þekkt. Hv. þm. Logi Einarsson flutti athyglisverða ræðu áðan um hvernig við eigum að hugsa þessi mál í heild sinni og ég tek undir að við þurfum að gera það. Þá nefni ég einn hlut varðandi fiskiskipin og orku til þeirra, sem ekki er fjallað um í textanum hérna en vildi gjarnan halda til haga og snertir þá líka möguleika landbúnaðarins. Landbúnaðurinn hefur nefnilega mjög mikla möguleika og mikil tækifæri fram að færa til orkuskiptaumræðu og nýrra orkugjafa. Í fyrsta lagi t.d. framleiðsla og ræktun á repju til orkuframleiðslu, hvort sem það er til að knýja bíla eða til að knýja bátavélar.

Ég nefni möguleika landbúnaðarins, bændanna og landeigendanna til að framleiða orku með minni vatnsaflsvirkjunum en okkur er oft tamt að tala um, þ.e. svokallaðar smávirkjanir eða bændavirkjanir. En þær eru líka háðar því að við eflum raforkuflutningskerfin okkar. Þá er ég ekki að tala um stóru byggðalínurnar eða stóru möstrin heldur einfaldlega dreifikerfin sem liggja um sveitir landsins, sem eru margar hverjar orðnar gamlar og komnar til ára sinna og eru tæknilega ófullkomnar, eru ekki þannig byggðar af þeirri kynslóð raforkuflutningskerfa sem við þurfum á að halda, sem í daglegu tali eru stundum kallað þriggja fasa rafmagn og er í raun og veru forsenda þess að menn geti hafið orkuframleiðslu í meiri mæli á bændabýlum, hvort sem það er þá með litlum vatnsaflsvirkjunum, vindorku mögulega. Eða þá sem er líka mótvægisaðgerð í loftslagsmálum, af því að við ræðum mikið um loftslagsmál í tengslum við orkuskipti, raforkuframleiðsla þar sem menn losa orku úr búfjáráburði, sem er svona hin stóra aðgerðin sem landbúnaðurinn almennt getur gripið til til þess að minnka losun frá starfsemi sinni, þ.e. að losa metanorku úr búfjáráburði, sem er víða um lönd orðinn mjög stór orkugjafi í heimi hinna endurnýjanlegu orkugjafa sem okkur er tamt að tala um.

Hagrænir hvatar í þessu sambandi væri verðugt verkefni fyrir atvinnuveganefnd þegar hún fjallar um málið að setja í samhengi við það að nýta mögulega möguleika repjuframleiðslu eða repjuræktunar sem reyndar bindur líka kolefni, nýta möguleika smávirkjana og nýta þá möguleika líka til þess að framleiða raforku úr haug í haughúsum.

Þetta eru allt saman hlutir sem raðast upp í alla þessa mynd hjá okkur. Síðan eru fjölmörg önnur tækifæri sem við höfum í orkuskipti sem við ráðum kannski ekki við að fjalla um í þessu þingmáli en er nauðsynlegt fyrir okkur að huga að sem snerta líka orkuna á bak við þau aðföng sem við erum að nota í okkar helstu atvinnuvegum.

Þetta er í stuttu máli innlegg mitt í þessa umræðu um orkuskipti og þessa ágætu þingsályktunartillögu og byrja þá aftur á því eins og ég gerði upphafi ræðu minnar að segja: Ráðherra slær hér alveg nýjan tón vegna þess að þegar við tölum um orkuskipti og þegar við tölum um að sækja fram og auka t.d. raforku í samgöngum, þá erum við raunverulega að tala um heimilin og við verðum að tala um þetta út frá hagsmunum heimilanna. Heimilin um allt land þurfa á því að halda að við eflum flutningskerfið og bætum það til þess að mögulegt verði að taka þátt í þessu stóra verkefni.