148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þetta. Ég benti á þennan mismun í nálgun alþjóðasamtakanna til að draga fram að viðhorf gagnvart þessum tveimur hlutum er mjög ólík, hvort sem það er með réttu eða röngu. En almennt séð virðist töluverður eðlismunur á viðhorfi til umskurðar drengja og kynfæralimlestinga á stúlkubörnum. Það á við hjá þessum alþjóðasamtökum líka. En auðvitað er mikilvægt að það sé byggt á traustum vísindalegum rökum ef verið er að halda slíku fram.

Eins og við nálgumst umræðuna hér skiptir það kannski heldur ekki höfuðmáli. Ef við segjum að við séum að verja hagsmuni barnsins þá er þessi ákvörðun ekki tekin fyrr en viðkomandi einstaklingur er orðinn stálpaður eða fullorðinn ef því er að skipta. Þar af leiðandi er það þá viðkomandi í sjálfsvald sett að kynna sér rök með og á móti.