150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur eðlilega verið komið víða við í 2. umr. um fjárlög ársins 2020. Það er af mörgu að taka þegar rekstur heils samfélags er undir. Umræðan hefur verið góð og á tímum mjög skemmtileg. Það er gaman að tala um fjárlög vegna þess að það að tala um fjárlög snýst um að tala um samfélag. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa þó greinilega ólíka sýn á það sem þessi fjárlög gera en það hefur verið sagt í umræðunni að hér verði áframhaldandi efnahagsstjórn á forsendum Sjálfstæðisflokksins og að fjárlögin endurspegli skattstefnu Vinstri grænna. Það er allt í lagi. Við erum fólk með ólíkar pólitískar skoðanir og það er eðlilegt að ólík pólitísk sýn endurspeglist í umræðunum.

Meðal helstu mála fjárlagafrumvarpsins eru breytingar á tekjuskatti einstaklinga, breytingar sem gert er ráð fyrir að innleiða á tveimur árum í stað þriggja, þar sem núverandi grunnþrep skattkerfisins verður að tveimur og skattþrepin þar með orðin þrjú, ásamt breytingum á persónuafslætti og skattleysismörkum. Tryggingagjald lækkar, fæðingarorlof lengist og myndarleg aukning verður í fjárfestingum hins opinbera næstu ár. Þetta eru góðar breytingar sem koma til með að auka lífsgæði og ráðstöfunartekjur heimila í landinu, gera fyrirtækjum auðveldara fyrir að ráða fólk og treysta innviði þessa lands. Að hluta til er um að ræða innlegg í lífskjarasamningana sem hafa dregið úr óvissu fyrir næstu ár að mati allra greiningaraðila.

Ýmsar forsendur hafa breyst síðan fjárlagafrumvarpið kom fram. Þar ber hæst ný hagspá Hagstofunnar og tekjur ríkissjóðs hafa í kjölfarið verið endurmetnar. Því eru gerðar tillögur um ákveðnar breytingar á frumvarpinu hér við 2. umr. en fyrir þeim hefur verið gerð grein fyrr í umræðunni. Brugðist er við samdrætti í hagkerfinu, ekki með því að skera niður heldur með því að leyfa heildarafkomunni að verða neikvæð um sem nemur 10 milljörðum kr. Sá halli er um 0,3% af vergri landsframleiðslu en það óvissusvigrúm sem fjármálastefnan leyfir er 0,8%. Þetta er skynsamleg ráðstöfun miðað við stöðuna í hagsveiflunni, að draga úr aðhaldsstigi opinberra fjármála og láta hið opinbera vinna með hagkerfinu. Til þess var óvissusvigrúmið sett inn í stefnuna í vor. Um þetta atriði í hagstjórninni, þ.e. hvernig brugðist er við kólnun í hagkerfinu, hefur ekki verið gerður mikill ágreiningur í umræðunni og hefur raunar ekkert mikið verið rætt. Þó svo að það hafi vissulega verið rætt af sumum þingmönnum hefur þetta ekki verið þunginn í umræðunni. Það tel ég vera til marks um styrkleika þessara fjárlaga.

Fram hafa komið sjónarmið um breytta forgangsröðun útgjalda og það er eðlilegt frá stjórnarandstöðu hvers tíma en við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði stöndum með þeirri forgangsröðun sem birtist í þessum fjárlögum og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar og erum stolt af. Við erum að treysta heilbrigðiskerfið, auka útgjöld til umhverfismála um milljarð króna og bæta lífskjör almennings með sérstakri áherslu á lágtekjuhópa með breytingum á skattkerfinu. Þetta tel ég allt verða okkar samfélagi til góðs á næsta ári.