138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Já, frú forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns. Ég held ég hafi greint þetta vitlaust. Ég held að það sé ekki rétt að draga alla þingmenn og alla vinstri græna í sama flokkinn, það eru hins vegar klárlega þingmenn þeirra á milli sem eru til í að ganga býsna langt til að komast í Evrópusambandið og auðvitað er það í öllum flokkum. En það sem er í húfi er nákvæmlega það sem hv. þingmaður sagði, það er ríkisstjórnarsamstarfið.

Frú forseti. Það er að mínu viti alveg ljóst og það hefur komið fram að sú hótun sem vofir yfir ef ekki verður gengið í takt í þessu máli er að ríkisstjórnin springi. Nú finnst mér það í rauninni alveg fáránlegt, alveg út í hött, að sprengja hugsanlega fyrstu vinstri ríkisstjórnina á slíku máli. Það er ekki einu sinni hægt að flokka þetta sem hefðbundið vinstra mál eða hægra mál. Þetta er alþjóðamál, alþjóðadeilumál, þetta er utanríkismál, milliríkjadeila sem er stillt upp með þessum hætti. Icesave-samkomulagið er einhver sá dýrasti verðmiði sem til verður hjá nokkurri þjóð að ganga inn í Evrópusambandið ef það gengur eftir, einhver dýrasti verðmiði sem til er.

Ég tek undir það, ég held að það séu og veit að það eru þingmenn innan þessa flokks sem ég nefndi sem alls ekki vilja ganga þá leið, bara alls ekki. En þeim er hins vegar stillt upp við vegg, það er alveg ljóst, þ.e. ef þessi verðmiði og þetta verð verður ekki greitt þá er ríkisstjórnin úti í vindinum og það er mjög sorglegt. Svo ég tali fyrir mína hönd þá hef engan áhuga á að sjá hana fara frá í þessu ástandi sem er í dag en það þarf hins vegar að ríkja friður og skynsamlega stefnu vantar inn í þetta.