141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

vextir af lánum frá Norðurlöndum.

[13:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Vegna orðaskipta hæstv. ráðherra og hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, hér áðan er rétt að nota tækifærið og minna hæstv. ráðherra á að framsóknarmenn hafa lagt fram enn eina tillöguna um hvernig koma megi til móts við þau heimili sem lítið hefur verið gert fyrir með úrræðum ríkisstjórnarinnar fram að þessu. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér það.

Erindið var að spyrja um annað þó að það sé á vissan hátt tengt, því að komið hefur til umræðu á þjóðþingum Norðurlanda, einkum í Noregi, að Íslendingar hafi verið látnir greiða of háa vexti af lánum sem Norðurlöndin veittu í tengslum við aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að stjórn efnahagsmála á Íslandi. Hafa þau lán verið borin saman við lán þeirra sömu landa til Írlands sem bera töluvert lægri vexti þó að staða mála á Írlandi sé síst betri en hér á landi. Fram kom að hæstv. fjármálaráðherra hefði nýverið hitt fjármálaráðherra Noregs, Sigbjørn Johnsen, en ekki hefur verið upplýst um hvað nákvæmlega þau ræddu en þau ræddu þó að einhverju leyti þetta vaxtamál.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort það sé mat hans að vextir Norðurlandalánanna, hinna svokölluðu vinalána, séu hærri en æskilegt og eðlilegt mætti telja með tilliti til aðstæðna og hver sé ástæðan fyrir því að ekki hafi verið leitað eftir því að fá þá vexti lækkaða því að fram kom í norska þinginu að Íslendingar hefðu einfaldlega ekki farið fram á lægri vexti. Það var svarið við því hvers vegna Íslendingar greiddu hærri vexti en Írar, að Íslendingar hefðu ekkert beðið um lægri vexti.