145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[13:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér við 3. umr. þessa máls eru örfá atriði sem ég vildi koma inn á til frekari skýringar. Ég ætla að láta nægja það sem áður hefur verið sagt um málsmeðferðina og aðrar þær breytingar sem við erum að fjalla um, en þau atriði sem ég vildi sérstaklega nefna eru einkum þrjú, við getum sagt að gefnu tilefni vegna fyrirspurna og umræðu sem hefur átt sér stað eftir að málið komst í þennan farveg.

Í fyrsta lagi hefur nokkuð borið á því að áhugamenn um útivist og ferðalög hafi áhyggjur af því að verið sé að þrengja að almannarétti með þeim lagabreytingum sem hér eru að fara í gegn. Um það vil ég segja að í meginatriðum er gert ráð fyrir því að óbreytt réttarástand gildi hvað almannaréttinn varðar. Í efnisumfjöllun nefndarinnar kom fram að umhverfið að þessu leyti hefur gerbreyst á undanförnum árum með auknum fjölda ferðamanna. Það gerir að verkum að þegar verið er að leita jafnvægis ef svo má segja milli sjónarmiða landeigenda, útivistarfólks og annarra ferðamanna, þá gerum við það í breyttu umhverfi.

Niðurstaða nefndarinnar í þessari umfjöllun var að þarna væri um að ræða sérstakt viðfangsefni sem nauðsynlegt væri að fengi sérstaka athygli og þess vegna komum við okkur niður á þá niðurstöðu að réttarástandið ætti í meginatriðum að vera óbreytt. En hins vegar beinum við því með skýrum hætti til umhverfisráðherra og ráðherra ferðamála að koma með tillögur fyrir þingið í síðasta lagi haustið 2017 þar sem lagaumhverfi að þessu leyti verði endurskoðað þannig að þetta sé skýrt. Þetta kemur skýrt fram í nefndaráliti og breytingartillögum, en ég taldi rétt í ljósi umræðunnar að árétta þetta.

Annað atriði sem ég vildi geta um sérstaklega eru þær breytingar sem við gerum á efnisatriðum frumvarpsins varðandi varúðarregluna. Tekin var sú ákvörðun af hálfu nefndarinnar að afmarka skýrar getum við sagt eða með öðrum hætti gildissvið varúðarreglunnar, en jafnframt var ætlunin að setja hana með skýrum hætti þar sem við töldum að hún væri mikilvægust, annars vegar á gildissviði náttúruverndarlaganna sjálfra og síðan leggjum við að auki til breytingu varðandi ákvæði mannvirkja- og skipulagslaga.

Það er skýrt af hálfu okkar í nefndinni að ætlunin er sú að við ákvarðanatöku um leyfisveitingar á grundvelli mannvirkja- og skipulagslaga verði varúðarreglan, samanber 9. gr. náttúruverndarlaga, gildandi. Það er mikilvægt að þetta sé ljóst enda er um að ræða leyfisveitingar á mannvirkja- og skipulagssviðinu sem eru verulega mikilvægar og að okkar mati er eðlilegt og nauðsynlegt að tekið sé fram að varúðarreglan gildi þegar slíkar ákvarðanir eru teknar, en auðvitað eru ákvarðanir af því tagi líka kæranlegar til kærunefndar umhverfis- og auðlindamála og geta fengið sína málsmeðferð þar.

Að lokum, hæstv. forseti, vildi ég nefna að varðandi varúðarregluna leggjum við vissulega til nýja leið við innleiðingu varúðarreglu í löggjöf með þeim breytingum sem við stöndum hér að og auðvitað er eðlilegt að fylgst verði með því bæði af hálfu þingsins og ráðuneyta hvernig sú innleiðing gengur. Um leið þarf að huga að því sem títt hefur rætt í okkar nefndarstarfi að það þurfi að fara yfir og bæta varúðarreglu inn annars staðar í löggjöfinni þar sem hún á við. Þetta er vinna sem við erum að hefja með málsmeðferðinni hér og mikilvægt að henni verði fylgt eftir.