131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[19:36]

Dagný Jónsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi fagna því að hæstv. menntamálaráðherra skuli leggja fram þetta frumvarp um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég var svo lánsöm að fá að starfa í nefndinni sem endurskoðaði lög lánasjóðsins og vil nota tækifærið og þakka þeim sem störfuðu í nefndinni fyrir afar gott samstarf, sérstaklega formanni nefndarinnar, hv. þm. Gunnari Birgissyni, og einnig þeim sem störfuðu með nefndinni. Einhugur ríkti um markmið vinnunnar og þó við höfum kannski deilt um leiðir var mikil sátt um niðurstöðuna.

Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Hugað verði að því að lækka endurgreiðslubyrði námslána og lög um sjóðinn endurskoðuð.“

Í frumvarpinu er því verið að standa við það sem í stjórnarsáttmála stendur.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur komið inn á þær breytingar sem nefndin lagði til, en mig langar til að gera lækkun endurgreiðsluhlutfalls á námslánum að sérstöku umtalsefni. Lagt er til að endurgreiðsluhlutfallið lækki úr 4,75% í 3,75%. Þetta er mikil breyting og sérlega ánægjuleg tíðindi fyrir þær þúsundir Íslendinga sem fengið hafa lán frá LÍN til að standa straum af kostnaði við menntun sína. Með þessu eru stjórnvöld að stíga enn eitt skrefið í átt til þess að efla menntakerfið í landinu og styðja við bakið á því fólki sem velur sér þá leið að sækja sér frekari menntunar í lífinu. Við töldum afar mikilvægt að gera því fólki sem greiðir 4,75% kleift að lækka endurgreiðsluhlutfallið, þannig að þeir sem tóku lán á grundvelli laganna frá 1992 verður gefinn kostur á að skuldbreyta eldri lánum.

Ríkissjóður mun leggja til töluverða upphæð vegna breytinganna, eða um 265–340 millj. kr. á ári hverju. Óvissan um nákvæma upphæð tengist fyrst og fremst breikkun tekjustofnsins, þ.e. að ekki verður lengur aðeins miðað við útsvarsstofn greiðenda heldur einnig fjármagnstekjur. Kostnaðarmat benti til þess að breikkun stofnsins jafngilti 3–7% hækkun á núverandi tekjuviðmiði. Óvissuþættirnir varðandi fjármagnstekjurnar eru ójöfn aldursdreifing, sveiflur milli ára og ójöfn tekjudreifing svo eitthvað sé nefnt.

Útgjaldaaukning skýrist einnig af því að eðlilega munu margir lánþegar sem tekið hafa námslán eftir 1992 nýta sér þann rétt að skuldbreyta lánum sínum. Einnig er enginn vafi á því að lækkun endurgreiðslubyrðar mun auka eftirspurn eftir námslánum. Spáin gerir ráð fyrir 1% fjölgun, en sú spá er nokkuð varfærin.

Í ljósi framangreinds mun árlegt framlag ríkissjóðs hækka úr 49% af útlánum í tæplega 54%. Þetta er mikil hækkun og stuðningur stjórnvalda við nemendur því að aukast töluvert.

Eðlilega hafa margir fagnað frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra. Ég leyfi mér að vitna í fréttir Stöðvar 2 frá 7. nóvember sl., með leyfi forseta:

„Formaður Stúdentaráðs fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að lækka endurgreiðslubyrði námslána um eitt prósentustig. Fyrir nýútskrifaðan háskólastúdent með 250 þús. kr. á mánuði samsvarar þetta 30 þús. kr. á ári.“

„Jarþrúður Ásmundsdóttir segir þetta mikilvægt hagsmunamál fyrir stúdenta enda sé ekki vanþörf á fyrir ungt fólk sem sé að koma sér þaki yfir höfuðið.“

Formaður Stúdentaráðs segir einnig, með leyfi forseta:

„Þetta er mikil kjarabót fyrir fólk á þessum aldri sem er með börn og er sem sagt að hefja sitt líf. Þetta eru líka mjög jákvæðar fréttir fyrir stúdenta í námi í dag sem eru á lánum og eru að fjárfesta í sinni framtíð.“

Fleiri hafa tjáð sig um málið og ályktaði Samband ungra framsóknarmanna fyrir skömmu. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna fagnar þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að lækka endurgreiðslu námslána úr 4,75% í 3,75%. Þetta útspil ríkisstjórnarinnar mun létta verulega greiðslubyrði þeirra sem eru að koma sér fyrir í þjóðfélaginu eftir háskólanám. Með þessu er Framsóknarflokkurinn að efna eitt helsta kosningarloforð sitt og sannar enn og aftur að þar fer stjórnmálaafl sem lætur verkin tala. Vonast SUF til þess að þetta hvetji ungt fólk til frekara náms.“

Hæstv. forseti. Með því að lækka endurgreiðslu námslána um 1% þýðir það eðlilega auknar ráðstöfunartekjur þeirra sem eru að greiða af námslánum. Það hlýtur að vera kærkomið og eru stjórnvöld með þessu að huga sérstaklega að þeim hópi sem hefur mestu greiðslubyrðina í þjóðfélaginu. Sá hópur er unga fólkið sem er að koma úr námi og er að stofna heimili og því fylgir mikill kostnaður.

Nefndin skilaði af sér til hæstv. menntamálaráðherra 4. nóvember sl. Mig langar að minnast á eitt atriði sem hæstv. menntamálaráðherra kom inn á áðan, að nefndin beindi því til hæstv. ráðherra að sérstök athugun færi fram á kostum og göllum þess að gera frekari greinarmun á lánaþætti og styrkjaþætti námsaðstoðarinnar. Ég tel mikilvægt að við förum í þá vinnu, styrkjakerfi hefur tíðkast víða á Norðurlöndunum. Reyndar höfum við heyrt af því að einhver lönd vilji fara aftur í eldra kerfi, þ.e. lánakerfið. Ég tel að það sé brýnt að við fáum nokkurs konar yfirlit yfir reynslu annarra landa af slíku kerfi.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á það áðan að hægt hefði verið að taka tillit til margra annarra atriða í endurskoðuninni. Ég tek undir það, en það var einhugur innan nefndarinnar að einblína á þetta atriði. Hann minntist á ábyrgðarmannakerfið. Ég fagna því sérstaklega að Landsbanki Íslands skyldi að frumkvæði sínu og í samvinnu við Lánasjóð íslenskra námsmanna bjóða námsmönnum upp á ábyrgðir gegn hóflegu gjaldi. Ég held að það sé enginn vafi á því að margir foreldrar og aðstandendur þeirra fagna því mjög.

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin ítreka þakkir mínar til hæstv. menntamálaráðherra fyrir að leggja málið svo fljótt fyrir. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir stóran hóp ungs fólks og mun koma sér afar vel fyrir margar fjölskyldur í landinu.