140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:54]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér eru greidd atkvæði um fjárveitingu til Fjármálaeftirlitsins og röksemdir þeirra sem vilja standa vörð um þá tillögu sem stjórnarmeirihlutinn gerir eru þau að stofnunin hafi lögbundinn rétt til að innheimta þetta gjald af eftirlitsaðilum. Sú fjárveiting sem ákveðin er af Alþingi til eftirlitsstofnunarinnar ræður því með hvaða hætti það frumvarp verður afgreitt og hvaða tekjur það gefur. Það er ekki þannig að við séum neydd til þess að marka fjárveitingarnar til stofnunarinnar á grunni frumvarpsins sjálfs.

Vöxturinn í þessari starfsemi er frá 1 milljarði árið 2010 í tæpa 2 milljarða árið 2012 samkvæmt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að það er ofvöxtur í þeirri stofnun. Það er ekkert samasemmerki á milli gæða og þess kostnaðar sem varið er til þess og á sama tíma hefur allt kerfið dregist saman. Við hvetjum til þess og styðjum (Forseti hringir.) þessa tillögu, og tökum undir þau sjónarmið meiri hlutans, að það sé full þörf á úttekt á kostnaði þessarar stofnunar.