149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:49]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að byrja gagnrýni mína á fjárlögum, en með gagnrýni meina ég að rýna til gagns á að tala um heildræna stjórnsýslu.

Heildræn stjórnsýsla er hugtak sem lýsir því þegar mismunandi aðilar í stjórnsýslunni vinna saman að sameiginlegu markmiði. Það væri bæði eðlilegt og æskilegt ef fjárlagagerð væri unnin í slíkri heildrænni nálgun en því miður er ekki að sjá slíka nálgun í fjárlagagerð.

Þá fjármuni sem við setjum í okkar sameiginlegu kerfi ber að líta á sem fjárfestingu. Við fjárfestum í betra samfélagi með því að tryggja framsýnt og heilbrigt menntakerfi, bætta heilsu, félagslega samheldni og dafnandi vistkerfi. Þannig sköpum við samfélag með síaukinni hagsæld. Verðmæti heildrænnar stjórnsýslu eru skýrust í heilbrigðisþjónustu. Sem dæmi horfum við fram á sömu þróun hér á landi og víðs vegar um heim þar sem fólk upplifir í vaxandi mæli einmanaleika, félagslega einangrun og vonleysi; aðstæður og upplifanir sem orsaka í auknum mæli langvarandi sjúkdóma sem leiða af sér aukinn kostnað í heilbrigðiskerfinu og draga úr menntun og efnahagslegum árangri.

Þetta eru ekki aðstæður sem verða bættar með starfsgetumati. Það eitt og sér lagar ekki slíkan vanda.

Það að tryggja aðgengi allra að gæðaheilbrigðisþjónustu óháð efnahag er efnahagslega rökrétt og siðferðislega rétt en eitt og sér dugir aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið ekki til að koma í veg fyrir aukin veikindi. Til að efla heilbrigði þarf að tryggja grunnþjónustu fyrir heilsu og öryggi en einnig efnahagsleg réttindi, mannúðlegan húsnæðismarkað, þýðingarmikla vinnu, möguleikana á áframhaldandi menntun og fræðslu alla ævi og getu fólks til að upplifa að það tilheyri.

Við lifum á miklum umrótatímum. Í þeim geta falist spennandi tækifæri og áskoranir. Rótgrónar stofnanir og kerfi verða samt að þróast í takt við breyttan heim. Ef þau gera það ekki skapar það hættu á aukinni sundrungu og niðurbroti lýðræðisins. Ár frá ári aukum við útgjöld í velferðarkerfinu og heilbrigðiskerfinu til að mæta þörfum þeirra en samt tekst okkur ekki að fullfjármagna þau. Hluti af skýringunni kann að vera ákvarðanir stjórnvalda hverju sinni en hluti ástæðunnar hlýtur að vera skortur á heildrænni nálgun. Skilning skortir á því að fjárfesting á einum stað í samfélaginu kann að skila arði annars staðar. Að tryggja gott umhverfi barna á skólaárunum, menntakerfi sem er opið öllum, fræðslu og forvarnir kann að koma í veg fyrir að einstaklingar þrói með sér geðræn vandamál eða neyslusjúkdóma síðar í lífinu.

Þessi kerfi eru nefnilega öll samverkandi. Það er víxlverkun sem erfitt er að átta sig á þegar skortur er á heildrænni nálgun. Með því að auka fjármuni á þeim stöðum þar sem þörfin er mest svörum við bráðasta vandamálinu en hugum kannski ekki nægilega að því hvar við getum fjárfest til að koma í veg fyrir öll þessi vandamál.

Núverandi fjárlagakerfi er sett upp þannig að níu ráðuneyti ríkisstjórnarinnar lýsa því hvað þau vantar mikla fjármuni í verkefni sín en heildartalan er alltaf hærri en þeir peningar sem við höfum til útdeilingar. Svo kemur fjárlagafrumvarpið og stofnanir ríkisins vona bara að þær hafi ekki dregið stutta stráið. Þannig hefur verið búið til kerfi sem byggir á skorti. Það þarf alltaf að kljást og deila um þá fjármuni sem eru til staðar. Hér á þingi fáum við fjárlagafrumvarpið til umfjöllunar, reynum að hlusta hvaða raddir samfélagsins kalla hvað helst eftir hjálp og svörum að því marki sem mögulegt er. En það er aldrei mögulegt. Á meðan kerfinu er stillt upp sem mismunandi aðilum að berjast um hver fær stærstan hluta af kökunni munum við aldrei ná raunverulegum árangri í þeim áskorunum sem við erum að fást við.

Til að ná þeim árangri verðum við að hugsa heildrænt um vandamálin og tækifærin sem við erum að fást við. Þetta á við um heilbrigðis- og velferðarmálin en einnig menntamál, umhverfismál, dómsmál og svo mætti lengi telja.

Við vitum að þegar fólk á erfitt með að ná endum saman eða þarf að verja miklum tíma í að hafa áhyggjur af fjármálum eykur það streitu og álag í lífi fólks og veldur vanlíðan og niðurlægingu, sem leiðir til skertrar sjálfsvirðingar, sorgar, kvíða, sem leiðir til niðurbrots á andlegu og líkamlegu heilsufari. Þessi svokallaði sparnaður í velferðarkerfinu — eða tregi stjórnmálamanna til að fjárfesta í velferð borgaranna — leiðir því augljóslega til aukinna útgjalda í heilbrigðiskerfinu. En þetta er aldrei skoðað. Hvers vegna er aldrei horft á þetta á þann hátt? Það er enginn sparnaður falinn í niðurskurði við þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Það er bara kostnaður.

Þegar við leyfum andlegri vanlíðan að þrífast aukast glæpir og vanvirðing fyrir samfélagssáttmálanum. Vanlíðan grefur undan getu fólks til að upplifa sig sem hluta af heild. Samstaða og samkennd minnkar, sem grefur undan getu fólks til að taka þátt í uppbyggilegri umræðu, vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Færri upplifa sig sem hluthafa í því og bera því litla virðingu fyrir og ábyrgð á umhverfi sínu og samborgurum. Stór hluti samfélagsins er fastur í streituvítahringnum sem fylgir láglaunastriti og bágri líkamlegri og andlegri heilsu.

Við höfum því miður gert það allt of erfitt fyrir fólk að komast út úr þessum vítahring. Fólk sem berst í bökkum hefur mjög skerta getu til þess að hugsa og skipuleggja til langs tíma. Við verðum að bregðast við þessum raunveruleika og taka þann veruleika inn í heildræna nálgun og bregðast við honum.

Fjárlög verða að endurspegla og taka tillit til allra þessara víxlverkana. Fjárlagagerð verður að vera í samræmi við samverkun þessara kerfa. Heildræn stjórnsýsla og heildræn fjárlagagerð er grundvöllur þess að við getum farið að byggja upp mannúðlegra samfélag sem þjónar okkur öllum. Hún er grundvöllur þess að við getum farið að taka vitsmunalega umræðu og taka ákvarðanir, rökréttar ákvarðanir, varðandi framtíðina.

Það sem við ættum að vera að gera með þessum fjárlögum er að tryggja efnahagsleg réttindi fólks, fjárfesta í einstaklingum og veita þeim svigrúm til að stíga upp úr daglegu amstri, staldra við og spyrja sig hvað skipti mestu máli í þessu lífi. Og veita fólki frelsi til þess að gera meira af því.

Hækkum persónuafsláttinn, styttum vinnuvikuna, afnemum skerðingar, lengjum fæðingarorlofið og tryggjum að börn einstæðra foreldra fái jafn mikinn tíma með foreldri sínu og börn sem hafa báða foreldra. Þetta skiptir líka máli.

Stærsta forvörnin felst í því að styðja við og hlúa að einstaklingum og fjölskyldum. Börn eiga ekki að þurfa að lifa við skort vegna erfiðleika foreldra. Undanfarin ár hafa framlög til félagsmála, fjölskyldumála, fatlaðs fólks og örorkulífeyrisþega verið með þeim hætti að þau geta ekki átt neinn þátt í að skapa sátt og bæta stöðu þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Þar sem við höfum rætt hvað mest hér er með hvaða hætti eigi að draga úr skerðingum örorkulífeyrisþega. Snemma á þessu ári var vitað um 4 milljarða kr. svigrúm sem væri hægt að nota til að draga úr skerðingum örorkulífeyrisþega. Með breytingartillögum meiri hlutans verður þessi upphæð færð úr 4 milljörðum kr. í 2,9 milljarða með þeim rökum að fresta þurfi nauðsynlegum kerfisbreytingum.

Með þeim kerfisbreytingum er væntanlega verið að vísa til starfsgetumatsins, en það þarf ekki að vera tilbúið til að ganga í það verk að draga úr krónu á móti krónu skerðingum örorkulífeyrisþega. Þetta tvennt hangir ekki saman. Starfsgetumatið er með öllu ótengt því að draga úr skerðingum. Réttast væri að afnema skerðingarnar alveg, algjörlega óháð þessu starfsgetumati. Hvers vegna er verið að tengja saman algjörlega ótengdar breytingar?

Við vitum hver kostnaðurinn við afnám skerðinga er. Fyrir þinginu liggur frumvarp Pírata um afnám krónu á móti krónu skerðingu, en kostnaðurinn við málin hefur verið metinn af ráðuneytinu sem 11,4 milljarðar. Það er talan sem við ættum að vera að ræða hérna, ekki 4 milljarðar, ekki 2,9 milljarðar, heldur 11,4 milljarðar. Það er talan sem við ættum að vera að ræða. Því að þegar öllu er á botninn hvolft er þetta ekki spurning um krónutölur. Þetta er spurning um réttlæti. Króna á móti krónu skerðing er eitthvað það ósanngjarnasta og óréttlátasta kerfi sem fyrirfinnst í sögu Íslands og þótt víðar væri leitað. Á að viðhalda slíku óréttlæti vegna þess að öryrkjar eru óhlýðnir þegar kemur að fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um starfsgetumat? Gulrótin virkaði ekki, þannig að nú á að beita svipunni.

Fjárlögin gera ráð fyrir lækkuðum tekjum vegna veiðigjalda að fjárhæð 3 milljarðar kr. Einhvern veginn höfum við efni á að missa þessar tekjur af okkar sameiginlegu auðlindum en við höfum ekki efni á að afnema krónu á móti krónu skerðingar. Viðhorf stjórnvalda hefur verið að nauðsynlegt sé að tryggja öryggi og afkomu útgerðanna, væntanlega vegna þess að það er fjárfesting í arðbærum sjávarútvegi, en stjórnvöld telja fólkið í landinu ekki mikilvæga auðlind til að fjárfesta í. Fjárfestingar í fólki munu alltaf skila arði og ávinningi til lengri tíma. Það er mikil skammsýni fólgin í þessum fjárlögum.

Að sama skapi virðist ríkisstjórnin ekki telja mikilvægt að fjárfesta í ungu fólki og barnafjölskyldum. Í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið bendir ASÍ á að barnabætur hafi lækkað mikið á undanförnum árum að raunvirði og þeim sem þiggi barnabætur hafi fækkað mikið. Lengd fæðingarorlofs hefur einnig staðið óbreytt um langa hríð, þrátt fyrir áköllun um lengingu þess. Mér þykir nokkuð augljóst að það sé ekki talið forgangsmál að fólk hér á landi eigi börn eða að barnafjölskyldur njóti stuðnings. Fyrirhuguð hækkun á þaki á greiðslum í fæðingarorlofi í 600.000 kr. er til bóta, já, en hún dugir skammt eftir fyrstu níu mánuði í ævi barns. Ef við ætlum ekki að fjárfesta í börnum og unga fólkinu í landinu, hvar þá?

Þá vil ég benda á að ekki er verið að huga að viðkvæmasta hópi foreldra og barna, sem eru einstæðir foreldrar með lágar tekjur. Fæðingarorlof á að snúast um þarfir barnsins, þ.e. verðmætan og streitulausan tíma með foreldrum til að tryggja heilbrigðan þroska. Það er ekki nóg að hafa það bara níu mánuði.

Þá get ég ekki fjallað um fjárlagafrumvarpið án þess að minnast á húsnæðismál. Undanfarin misseri hefur staðið yfir ein mesta húsnæðiskrísa sem Íslendingar hafa upplifað. Húsnæðisverð hefur rokið upp og leiguverð með því. Í frumvarpinu er að finna aukningu á stofnframlögum um 800 millj. kr. í félagslegar íbúðir. Það er til bóta. En þessi eina aðgerð ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum er einfaldlega til skammar. Það þarf að auka framlög til almennra íbúða, hækka þarf húsaleigubætur sem hafa ekki tekið breytingum í samræmi við verðlag og hækka þarf vaxtabætur. Þess má geta að þær lækka einmitt með þessum fjárlögum.

Forseti. Ég fer að enda þetta erindi mitt, sem er ekki langt. Ég geri mér grein fyrir að það eru mörg málefnasviðin sem falla undir velferðarmál og margt gagnrýnisvert að finna í frumvarpi til fjárlaga og ég gæti farið í gegnum það lið fyrir lið og talað um hversu mikið fjármagn vantar í hvern lið. En ómögulegt er að gera sér grein fyrir því meðan þessa heildrænu nálgun skortir og meðan svo mikið ógagnsæi er í fjárlögunum. Ég geri mér ekki grein fyrir hvernig kostnaðaráætlunin hefur farið fram, þ.e. hvernig var ákveðið hvaða upphæðir ættu að fara í hvern málaflokk fyrir sig. Við fáum gesti á fund velferðarnefndar trekk í trekk sem segja okkur frá því að kostnaðarmat á þjónustuþörf sé algerlega óviðeigandi, það sé endalaust verið að fara fram á að þjónustan sé aukin á meðan fjármagnið fylgi ekki og að þessir aðilar eigi bara að geta sinnt þjónustu með því litla fjármagni sem þeir hafa á milli handanna.

Frumvarp til fjárlaga? Ég hef ekki séð nein gögn sem liggja undir, neinar kostnaðargreiningar eða reikningsdæmi sem sýna skýrt hvers vegna vissar upphæðir eru áætlaðar í vissa málaflokka. Á meðan staðan er þessi og þá heildrænu nálgun skortir er ótrúlega erfitt að gagnrýna og segja nákvæmlega hvar vanti pening og hvar sé t.d. of mikið.

Ég ætla að enda þetta erindi mitt á að tjá hversu fjarstæðukennt það er að neysluhyggja, auðsöfnun og hagvöxtur sé enn í forgangi á tímum þar sem við horfum upp á að loftslagsbreytingar og mengun ógni lífi á jörðinni, þessu eina heimili mannkyns fyrir framtíðarkynslóðir. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að snúa þeirri þróun við, en það er á ábyrgð okkar stjórnmálafólks að sýna gott fordæmi og forgangsraða velferð almennings, samfélagsins og umhverfisins. Þannig gerum við almenningi kleift að stíga út úr þessu daglega striti, horfa fram á við og taka þátt í að hlúa að framtíðinni og komandi kynslóðum.