149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:39]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það má vera að það hafi verið rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar hér áðan, að við séum ekki lengur á toppi hagsveiflunnar og að við séum á niðurleið, en ég held að það fari ekki á milli mála að við erum enn býsna ofarlega og langt þangað til að við förum að nálgast einhvers konar öldudal. Þetta fjárlagafrumvarp ber þess að ýmsu leyti merki að hér er mikið fé til ráðstöfunar og það er ýmislegt jákvætt við frumvarpið og tillögur meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Þar sjáum við ákveðna lofsverða viðleitni í loftslagsmálum og eins varðandi eflingu íslenskrar tungu, svo dæmi séu tekin. Ég vona þó að mér verði virt það til betri vegar þó að ég í ræðu minni staldri fremur við það sem mér þykir betur mega fara í þessu frumvarpi og þessum tillögum og geri þá jafnframt grein fyrir því sem Samfylkingin hefur fram að færa. Samfylkingin leggur til 17 breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið upp á rúma 24 milljarða kr. og eru þessar tillögur að öllu leyti fjármagnaðar. Þá gerir Samfylkingin ráð fyrir hærri afgangi á ríkissjóði á næsta ári en ríkisstjórnarflokkarnir gera ráð fyrir.

Það er stundum talað eins og tillöguflutningur af þessu tagi sé yfirborðsmennska og tóm látalæti og eingöngu til þess ætlaður að láta ríkisstjórnarflokka hverju sinni líta illa út þegar þeir fella hvert þjóðþrifamálið á fætur öðrum en tillögur flokkanna líta að sama skapi vel út. Þetta held ég, herra forseti, að sé að nokkru leyti ofmælt. Ég get a.m.k. staðhæft það að Samfylkingin leggur sínar tillögur fram í góðri trú og vonast til þess að fá þær samþykktar og ef ekki allar, sem æskilegt væri, þó a.m.k. einhverjar.

Þingræðisfyrirkomulag okkar gerir ráð fyrir að þar takist á fulltrúar ólíkra hagsmuna og hugsjóna. Þegar um fjárlög er að ræða þá kemur munur flokkanna hvað best í ljós þegar kemur að því að ákveða hvernig háttað skuli útdeilingu á gæðum og byrðum í samfélaginu. Þar sýna flokkarnir bæði í orði og verki hver stefna þeirra er í raun og veru. Og stefna flokkanna er ólík hvað sem hver segir. Það er munur á vinstri og hægri nema kannski einna helst þegar um öfgamenn er að ræða sem líkjast hverjir öðrum alltaf furðumikið, hvort sem þeir kenna sig við vinstri eða hægri eða einhver trúarbrögð.

Hægri menn líta yfirleitt svo á að skattar eigi að vera lágir, jafnvel því lægri sem laun séu hærri eins og ýtrustu hægri menn telja. Þeir vilja að fyrirtæki njóti lágra skatta. Þeir vilja líka að ríkisútgjöld séu eins lítil og komist verði af með en telja að ríka fólkið noti auð sinn öðrum til hagsbóta, fjármagni jafnvel af veglyndi sínu spítala og skóla og hvers kyns mannúðarmálefni. Vinstri menn telja á hinn bóginn að ekki sé á vísan að róa með það og benda á stórfelld undanskot til aflanda máli sínu til stuðnings, þegar ríka fólkið treystir sér ekki einu sinni til að taka þátt í að fjármagna þó þá samneyslu sem það nýtur sjálft góðs af. Vinstri menn líta svo á að samfélagið verði að hafa viss úrræði til að jafna ólík kjör fólks sem eru iðulega komin til vegna þess að tækifærin eru ójöfn, skiptingin er ranglát. Þessum tækjum verði þá að beita markvisst og af sanngirni en líka í vissu hófi. Vinstri menn telja líka að sum verkefni þurfi að leysa á samfélagslega vísu, þar eigi gróðasjónarmiðin ekki við, ekki síst á sviði heilsugæslu- og skólamála.

Umræðan um veiðigjöldin sem núverandi ríkisstjórn ætlar að lækka um 3 milljarða leiðir vel í ljós þennan mun. Vinstri menn segja sem svo að vel geti verið að minni útgerðir ráði ekki við að greiða þjóðinni, almenningi, það sem við teljum vera sanngjarnt gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind okkar allra. Þá verði að leita leiða til að hjálpa þeim við að ráða við þau rekstrarskilyrði, jafnvel finna sér arðbærari iðju, en ekki sé réttmætt að miða veiðigjöldin hjá þeim stóru og öflugu líka við þá erfiðleika. Þeir stóru og öflugu geti vel komist af án þess háttar ívilnana af hálfu samfélagsins.

Tillögur okkar í Samfylkingunni bera þess merki að við erum vinstri flokkur, við erum jafnaðarmenn. Við viljum sjá heilbrigt og öflugt atvinnulíf þar sem einstaklingsframtakið þrífst og nýtur sín án þess að eiga á hættu að vera gleypt af stórum einokunarrisum. Við viljum líka að þetta atvinnulíf greiði eðlilega skatta til samfélagsins sem verði þá notaðir í almannaþágu, bæði til að létta undir með fólki sem þarf á hjálp að halda og fjárfesta í þekkingu til að hjálpa okkur að verða samkeppnisfært og fjölbreytt og lifandi samfélag þar sem fólk getur nýtt krafta sína og tíma í annað en skuldabasl og hangs í umferðarteppum á vondum vegum með vondu slitlagi eða á biðlistum eftir bót meina sinna.

Við teljum ekki nóg að gert í fjárlagafrumvarpinu við að byggja upp innviðina sem vanræktir voru svo átakanlega á bóluárunum þegar ofsafengin auðhyggja réði ferð við stjórn landsmálanna og náðist ekki að byggja upp á þeim fjórum árum sem vinstri mönnum gáfust til að stjórna landinu af strandstað þjóðarskútunnar. Tillögur okkar miðast við það að gera líf fólksins í landinu ögn bærilegra. Tillögur okkar eru þessar og nú ætla ég að bruna í gegnum tillögur Samfylkingarinnar, þessar 17 tillögur.

Við viljum að gistináttagjald upp á 1,3 milljarða renni til sveitarfélaga sem þurfa sárlega á peningum að halda við að byggja upp innviði vegna stórkostlegrar fjölgunar ferðamanna. Við viljum að 4 milljarðar verði látnir renna til málefna aldraðra í stað 2,1 milljarðs eins og ríkisstjórnin gerir ráð fyrir. Við viljum tvöfalda framlög til málefna sem tengjast öryrkjum svo að 4 milljarðar renni til þeirra. Við viljum tvöfalda barnabætur frá tillögum ríkisstjórnarinnar og setja 2 milljarða í þær. Við viljum setja 1 milljarð til háskólanna og 400 milljónir til framhaldsskólanna. Við viljum setja 2 milljarða til starfsemi Landspítalans, í Sjúkrahúsið á Akureyri, til heilbrigðisstofnana víða um land viljum við setja 800 milljónir og til hjúkrunarheimila 1 milljarð, en til þess að vinna upp 600 manna biðlista hjá SÁÁ og til að tryggja þjónustu SÁÁ á Akureyri viljum við setja 150 milljónir.

Samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar fengi löggæslan 800 milljónir en 2 milljarðar rynnu til uppbyggingar í samgöngum sem nú mun eiga að fjármagna sérstaklega með vegatollum um land allt. Í húsnæðismál viljum við setja 2 milljarða, í vaxtabætur aðra 2 milljarða. Við stingum upp á 400 millj. kr. framlagi í þróunarsamvinnu og gerum tillögu um sjónvarpssjóð upp á 300 millj. kr.

Því er ég nú að þylja þetta hér allt upp til að árétta það að allt eru þetta raunveruleg úrlausnarefni sem fara ekkert burt þótt þau séu ekki fjármögnuð. Þarna á bak við er raunverulegt fólk með raunveruleg vandamál og allt eru þetta raunhæfar tillögur og þeim fylgja öllum raunhæfar leiðir til að fjármagna þær. Sumar af fjármögnunartillögum okkar eru vissulega ekki stórvægilegar en blasa eiginlega við, t.d. að lagður verði aftur á sykurskattur samkvæmt eindregnum tilmælum lýðheilsufræðinga, sem myndi gefa okkur milljarð í ríkissjóð. Ásamt veiðigjöldunum hefur sykurskatturinn jafnan verið íslenskum hægri mönnum alveg sérstakur þyrnir í augum, enda eru íslenskir hægri menn annálaðir nammigrísir.

Við teljum að það séu vannýtt tekjuúrræði í fjárlagafrumvarpinu. Við viljum að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður, tekjutengdur auðlegðarskattur. Við viljum að leitað verði leiða til að auka tekjur ríkissjóðs af þeim gríðarlega fjölda erlendra ferðamanna sem hingað kemur. Við viljum að kolefnisgjald verði enn hækkað og jafnist á við það sem hin framsækna ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hafði áform um. Og við viljum sjá hærri auðlindagjöld en eins og kunnugt er stendur til að létta greiðslum af útgerðarfyrirtækjum.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eins og það kemur nú frá hv. fjárlaganefnd er annað hljóð í strokknum. Eins og frægt er fá öryrkjar nú lækkun milli umræðna upp á 1,1 milljarð. Eiginlega sér maður næstum fyrir sér hv. fulltrúa meiri hlutans rýna af alefli í frumvarpið í leit að einhverjum málaflokkum þar sem fólk sé ofhaldið og staldra við öryrkja. Er þetta fólk ekki að fá of mikið? Um fá mál ríkir jafn mikil eindrægni og um nauðsyn þess að afnema hið óréttláta fyrirkomulag sem kennt er við krónu á móti krónu. Enn er samt afnám þess ófjármagnað.

Húsnæðisstuðningur fær 91 millj. kr. niðurskurð í breytingartillögum meiri hluta hv. fjárlaganefndar þrátt fyrir litla sem enga viðbót þegar frumvarpið var lagt fram og þrátt fyrir að æ fleiri landsmenn séu að gera sér grein fyrir því að húsnæðismálin eru eitt stærsta hagsmunamál almennings, húsnæðismál eru mannréttindamál, og þrátt fyrir að verkalýðshreyfingin hafi sett þessi mál sérstaklega á oddinn í komandi kjarasamningum. Þetta snýst um þann einfalda rétt hverrar fjölskyldu að eiga sér heimili en þurfa ekki að vera á hrakhólum árum og áratugum saman eða í skuldaánauð lánastofnana með því lánafyrirkomulagi sem hér tíðkast.

Breiðu bökin finnast víðar. Þannig er milli umræðna skorið niður um 30 millj. kr. vegna útlendingamála þannig að Útlendingastofnun fær ekki þá fjármuni sem hún þarf til að afgreiða sómasamlega þær umsóknir sem til hennar berast. Eru þó umsækjendur látnir greiða 35.000 kr. gjald sem rennur í ríkissjóð til ýmissa verkefna. Má segja að þetta séu þá þau einu komugjöld sem okkur Íslendingum hefur tekist að koma okkur saman um.

Annar málaflokkur þar sem framlög eru skorin niður er náttúruvernd, skógrækt og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða sem fá um 170 millj. kr. niðurskurð milli umræðna sem óneitanlega segir sitt um það hver hugur fylgir máli hjá innviðastjórninni. Hið sama er upp á teningnum hjá hjúkrunarheimilum sem sent hafa frá sér eindregin varnaðarorð um að það stefni í þrot að óbreyttu. Einungis er lagt til að hjúkrunarheimilin fá um fimmtung af því sem þau hafa talið nauðsynlegt til viðbótar í rekstur sinn.

Samgönguáætlun er enn vanfjármögnuð. Ekki verður séð að í henni sé gert ráð fyrir fjármagni til undirbúnings nauðsynlegra framkvæmda sem lúta að eflingu almannasamgangna, til uppbyggingar á almennilegu almenningssamgangnakerfi sem rís undir nafni sem raunverulegur valkostur fyrir almenning á leið úr og í vinnu. Sú framkvæmd sem felur í sér að skapa sérrými fyrir akstur almenningsvagna er forsenda þess að markmið svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins um hagkvæma uppbyggingu og hlutfallslega minnkun umferðar nái fram að ganga og er ein af meginforsendum fyrir því að það takist að draga úr losun koltvíoxíðs hér eins og skuldbindingar okkar kveða á um.

Í mennta- og menningarmálum er vissulega fagnaðarefni, eins og fyrr segir, að stórátak skuli standa fyrir dyrum varðandi varðveislu íslenskrar tungu og hluti af því eru aðgerðir til stuðnings bókaútgáfu sem vonandi eiga eftir að gefa góða raun. Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að samhliða þessu metnaðarfulla átaki þurfum við kannski öll að velta fyrir okkur hvort við séum á réttri braut í íslenskukennslu og lestrarkennslu í grunnskólum, hvort áherslur þar á hraðlestur og villugildrur hafi gefið góða raun eða séu vel til þess fallnar að efla með íslenskum börnum og ungmennum ást á íslenskri tungu eða löngun til að iðka hana.

Við fáum væntanlega tækifæri til að ræða þessi mál betur þegar fram kemur boðuð þingsályktunartillaga hæstv. menntamálaráðherra um eflingu íslenskrar tungu og þá eigum við líka eftir að sjá hvernig ráðherrann hyggst efla einkarekna fjölmiðla. Þó er ástæða til að ítreka að mjög misráðið væri að veikja Ríkisútvarpið sem er einn besti vettvangur sem við eigum fyrir lifandi umræðu á lifandi tungumáli. Meðal þeirra breytingartillaga sem Samfylkingin leggur fram og við gerum okkur vonir um að fá samþykki fyrir er að útgjöld til sjónvarpssjóðs, þ.e. leikið sjónvarpsefni sem heyrir undir Kvikmyndamiðstöð Íslands, verði aukin um 300 millj. kr. Ég get naumast ímyndað mér betri fjárfestingu en þessa. Hún er vel til málræktar fallin. Það segir sig eiginlega sjálft. Hún gerir líka fjölmörgum vel menntuðum einstaklingum á þessu sviði kleift að stunda og þróa færni sína og list og síðast en ekki síst stuðlar öflugri sjónvarpsþáttagerð að því að við getum gert það sem hverju menningarsamfélagi er nauðsynlegt: Að horfa á okkur sjálf og samfélag okkar í þeim spegli sem kvikmynduð saga getur verið þegar vel tekst til. Við getum vitnað til Ragnars Reykáss, Bibbu á Brávallagötu eða Georgs Bjarnfreðarsonar þegar við viljum tjá okkur um einhvern tiltekinn sérstakan en um leið dæmigerðan framgangsmáta í íslensku samfélagi. Við þurfum miklu fleiri slíka karaktera ef vel á að vera.

Mig langar í þessu sambandi að fá að vitna til þess sem sá ágæti og virti kvikmyndaleikstjóri, Ragnar Bragason, sem við þekkjum m.a. frá Fangaseríunni og sem leikstjóra Vaktaþáttanna, skrifar um þessa tillögu á Facebook-síðu sína í morgun. Ragnar skrifar, með leyfi forseta:

„Stuðningur hins opinbera við leikið íslenskt sjónvarpsefni — sem aldrei fyrr hefur verið jafn eftirsóknarvert og í hávegum haft alþjóðlega — er smánarlegur og mikill flöskuháls. Gríðarleg gróska er í bransanum og margar efnilegar þáttaraðir í burðarliðnum sem hljóta ekki brautargengi vegna fjárskorts héðan, en eins og fólk veit þá er framlag frá Íslandi frumforsenda þess að hægt sé að sækja styrki úr sjóðum erlendis. Eins og staðan er þá úthlutar Kvikmyndasjóður grátlega litlu til leikins sjónvarpsefnis, eða um 150 milljónum árlega, sem er aðeins örlítið brot af kostnaði. Sem dæmi þá munum við aðstandendur Fanga ekki geta farið í tökur á næstu þáttaröð — þó svo að handrit sé löngu klárt og ekkert annað til fyrirstöðu — fyrr en 2020. Það er bagalegt að geta ekki fylgt hraðar eftir velgengni bæði hérlendis og erlendis. Milljónir manna víða um heim hafa notið Fanga (eins og Ófærðar, Réttar, Stellu Blómkvist og fleiri íslenskra þáttaraða) í gegnum norrænu ríkisstöðvarnar, Netflix, Sundance Channel, AMC o.fl. og hróður lands og listar berst þannig víða. Ég skora á ráðherra málaflokksins, Lilju D. Alfreðsdóttur, sem og aðra þingmenn að bæta úr. Nú er lag.“

Svo mörg voru þau orð, herra forseti, og ég vil leyfa mér að gera þau að mínum og beina til allra þingmanna. Nú er lag. Við skiljum öll nauðsyn málsins sem á ekki að vera flokkspólitískt en tengist órjúfanlega viðleitni ráðherrans til að efla íslenska tungu og notkun hennar í daglegu lífi og daglegri menningarneyslu sem fer að svo miklu leyti fram á ensku að sumum kann að virðast jafnvel ankannalegt að sjá fólk tala íslensku á skjánum.

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru gefin fyrirheit um að fjárframlög til háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna árið 2020 og Norðurlandanna árið 2025, enda var hér um að ræða eitt af helstu kosningamálunum. Því miður endurspeglar hvorki fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar né fjárlagafrumvarpið þessi fyrirheit. Það vekur svo enn frekari ugg að samkeppnissjóðir og rannsóknastarfsemi á háskólastigi fá 200 millj. kr. niðurskurð á milli umræðna. Í umsögn Stúdentaráðs Háskóla Íslands segir um þetta, með leyfi forseta:

„Á Norðurlöndunum eru heildartekjur háskóla á ársnema að meðaltali 4,4 milljónir á ári en á Íslandi eru þær aðeins 2,6 milljónir. Nemendur á Íslandi fá því um 1,8 milljónum króna minna. Í fjárlögunum er raunhækkun Háskóla Íslands um 200 milljónir. Launa- og verðlagsbætur eru stór hluti af þessari hækkun en fjöldi ársnema sem greitt er fyrir stendur nánast í stað í frumvarpi til fjárlaga 2019.

Nemendur fá 70% meira í Svíþjóð. Nemendur fá 42% meira í Finnlandi. Nemendur fá 85% meira í Danmörku. Nemendur fá 81% meira í Noregi.“

Hið sama, virðulegi forseti, er upp á teningnum þegar kemur að framhaldsskólastiginu. Það fær til viðbótar 80 millj. kr. niðurskurð þrátt fyrir að fá lækkun milli ára þegar frumvarpið var lagt fram. Þar finnst mér sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af iðn- og starfsnámi. Ekki er sjáanlegur skýr stuðningur við fagskólastigið þrátt fyrir útbreiddan og almennan vilja til að efla slíkt nám, til að gefa ungu fólki kost á fjölbreyttari þjálfun fyrir lífið en fæst með bóklestrinum einum.

Umsögn Kennarasambands Íslands um fjárlögin er hófsamlega orðuð en býsna afdráttarlaus engu að síður. Í niðurlagsorðum þar segir, með leyfi forseta:

„Fjárlagafrumvarp er stefnumarkandi plagg og í því birtist forgangsröðun ríkisins með skýrum hætti. KÍ saknar þess að menntamál séu tekin fastari tökum í frumvarpinu. Í kaflanum sem fjallar um áherslur og forgangsmál er rætt um ýmis forgangsverkefni á víðum grunni og m.a. rædd ábyrgð ríkisins á innviðum og stöðugleika. Þar ætti að koma skýrt fram að ríkið ætli sér í stórsókn í menntamálum. Framtíð menntunar verður ekki aðgreind frá hagsæld til framtíðar. Um leið og KÍ fagnar því að ríkisstjórnin setji menntamál í forgrunn í opinberri umræðu þá bendum við á að kné þarf að fylgja kviði. Það er ekki gert með nægilega skýrum hætti í fjárlögum ársins 2019.“

Svo mörg voru þau orð.

Virðulegi forseti. Það er munur á hægri og vinstri í stjórnmálum. Sá munur kemur vel í ljós í þessu frumvarpi, annars vegar með breytingartillögu meiri hluta hv. fjárlaganefndar og svo hins vegar breytingartillögum Samfylkingarinnar sem miða allar að því að bregðast við kröfum landsmanna um aukna innviðauppbyggingu, betri lífskjör og aukinn jöfnuð í samfélaginu.