149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir samtalið. Ég kom fyrst og fremst upp til að bregðast við ábendingum hv. þingmanns varðandi yfirferð yfir fjárlagafrumvarpið og fyrirkomulagið á því. Við fórum mjög gaumgæfilega í gegnum þetta með öllum nefndum í umfjöllun um ríkisfjármálaáætlun. Það má vel vera að tekin hafi verið ákvörðun í framhaldinu að gera það ekki í fjárlagafrumvarpinu sem byggir á ríkisfjármálaáætlun, ég ætla ekki að fullyrða það, en við þurfum að ræða þetta frekar, og ég ítreka það, að þingflokksformenn og nefndarformenn, með hæstv. forseta, fjalli um það, svo því sé komið rétt til skila.

Varðandi sölu losunarheimilda: Ég átti aðeins samtal við hv. þm. Birgi Þórarinsson, sem fer fyrir 3. minnihlutaáliti, um það. Þetta er svolítið nýtt, enda eru viðskipti með losunarheimildir í ETS-viðskiptakerfi, sem er ein meginstoðin í aðgerðum EES-ríkjanna á sviði loftslagsmála. Það á að vera hvati í því kerfi fyrir fyrirtæki til að menga minna. Svo þetta er svolítið nýtt fyrir okkur. Þessi þrjú ríki, sem eru einu þrjú ríkin, skilst mér, hafa ekki enn þá verið alveg tilbúin með þetta kerfi til að selja heimildir. Ég held að við þurfum að fara í að ræða þetta miklu frekar, hvaða áhrif þetta hefur.

En það er þannig með allar losunarheimildir, sem ekki er úthlutað án endurgjalds til fyrirtækja, eru boðnar upp og þeim úthlutað til ríkja EES-ríkjanna árlega eftir tilteknum reglum. Ég held að við þurfum að kalla eftir frekari upplýsingum um þetta. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hefur kynnt sér þetta mjög vel og fór yfir það í andsvari nokkuð nákvæmlega.