132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

4. fsp.

[15:40]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að huga að almannahagsmunum í þessu máli eins og öðrum en við skulum hafa það í huga að það er ekki ólöglegt að hafa markaðsráðandi stöðu samkvæmt lögum. Hins vegar er ólöglegt að misnota markaðsráðandi stöðu. Ef fyrirtæki gera það eru þau að brjóta lög. Það er það sem hlýtur að vera útgangspunkturinn í þessari umræðu, ef fyrirtæki sem hafa markaðsráðandi stöðu brjóta lög þarf að fara með það athæfi sem lögbrot.

Eins og ég sagði áðan tel ég að Samkeppniseftirlitið hljóti að hafa eftirlit með öllum mörkuðum, ekki síst matvælamarkaði þar sem hann er hverjum íbúa þessa lands mikilvægur. Og hvað þeir eru að gera get ég ekki svarað hér vegna þess að ég hef ekki afskipti af Samkeppniseftirlitinu. Það er ekki lítið búið að tala um það á hv. Alþingi að það skipti máli að stjórnvöld hafi ekki afskipti af eftirlitsstofnunum almennt.