132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Innflutningur dýra.

390. mál
[18:46]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum, á þskj. 472, mál nr. 390.

Í 7. gr. laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, er kveðið á um að starfrækja skuli sóttvarna- og einangrunarstöðvar vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni þeirra. Í samræmi við þessi ákvæði laganna stofnsetti landbúnaðarráðuneytið árið 1990 einangrunarstöð fyrir hunda og ketti í Hrísey og hefur stöðin verið starfrækt þar síðan.

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna staðsetningu stöðvarinnar vegna þess viðbótarálags fyrir dýrin sem flutningur frá Keflavíkurflugvelli til Hríseyjar veldur og þess kostnaðarauka sem flutningnum fylgir. Hins vegar hefur einangrunin sannað gildi sitt og ekki hafa komið upp sjúkdómar í gæludýrum hér á landi sem rekja má til innflutnings gæludýra frá því að stöðin tók til starfa.

Ýmsir einkaaðilar hafa í gegnum árin sóst eftir að fá leyfi til að reka einangrunarstöðvar fyrir gæludýr og með lögum nr. 175/2000, um breytingu á lögum um innflutning dýra, var landbúnaðarráðherra heimilað að fela einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum rekstur einangrunarstöðva. Með reglugerð nr. 432/2003 voru síðan skilgreindar þær kröfur sem gerðar eru um útbúnað einangrunarstöðva fyrir hunda og ketti og hvernig skuli staðið að veitingu rekstrarleyfis fyrir slíkar stöðvar. Landbúnaðarráðherra veitir leyfi til reksturs slíkra stöðva að fenginni umsögn yfirdýralæknis.

Nú hefur einkaaðila í Höfnum á Reykjanesi verið veitt leyfi til reksturs einangrunarstöðvar fyrir hunda og ketti og tók stöðin til starfa 1. desember sl. Í framhaldi af því hefur verið ákveðið að landbúnaðarráðuneytið hætti afskiptum af rekstri einangrunarstöðvarinnar í Hrísey. Óskað hefur verið eftir heimild í fjárlögum næsta árs til að selja stöðina eins og kunnugt er hér í þinginu. Óeðlilegt þykir að gefin sé út opinber verðskrá fyrir þjónustu einangrunarstöðva fyrir hunda og ketti eftir að ríkið hefur dregið sig út úr slíkum rekstri.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og landbúnaðarnefndar.