133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[23:07]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir þurfi að lesa þá ræðu sem hún flutti áðan. Hún sakaði meiri hluta fjárlaganefndar um valdafíkn, hún sakaði meiri hluta fjárlaganefndar um að misfara með völd sín, sem eru mjög alvarlegar ásakanir, svo við höfum það á hreinu.

Ég hef ekki heyrt það frá Jóni Bjarnasyni þegar við erum að tala um málefni húsafriðunar að þar sé hv. fjárlaganefnd að misfara með völd sín. Það vill svo til að við hv. þingmenn þekkjum til þeirra verkefna, höfum skoðað þau verkefni, m.a. með forustu húsafriðunarsjóðs. Ég vil minna hv. þingmann á að það er nú svo að fjárlagavaldið er hjá Alþingi.

Hv. þingmaður nefndi það áðan ómaklega að hv. fjárlaganefnd væri að rokka með málefni náttúrustofa. Fyrst væri skorið af þeim og svo bætti fjárlaganefnd í. Það er þannig að þingið tekur við frumvarpi frá ríkisstjórn Íslands til meðhöndlunar. Fjárlaganefnd hefur ætíð bætt sérstaklega fjármunum til náttúrustofa í störfum sínum þannig að fjárlaganefndin hefur ekkert verið að rokka eitt né neitt í þeim þáttum. Þegar við erum að tala um sjálfstæði þingsins verða þingmenn að bera virðingu fyrir því valdi sem fjárlaganefndin hefur. Við setjum fjárlög hvers árs og ef við vogum okkur að breyta tillögum ríkisstjórnarinnar, t.d. hvað náttúrustofur varðar sem skipta mjög miklu máli, þá heyrist mér að þingmaðurinn sé að mótmæla því, hér sé ekki nógu faglega staðið að verki, þingmenn hafi ekki nægilega faglega þekkingu og vinni ekki nægilega faglega að þeim hlutum.

Ég mótmæli því að við eigum að binda allar ákvarðanir í viðjar embættismanna, að þingmenn megi ekki taka stefnumarkandi ákvarðanir um að auka framlög til náttúrustofa vítt og breitt um landið eins og hv. þingmaður var að ýja að, það ætti að gera á öðrum og faglegum forsendum, ég bara mótmæli því.