133. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[00:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að upplýsa hv. þingmann um að það eru fleiri en einn stuðningsmaður í Skagafirði. Þeim fjölgar óðum og flokksstarfið þar er að eflast hjá okkur frekar en hitt. En svo að ég svari hv. þingmanni ætti ég að taka fram að honum hefur kannski misheyrst þegar ég talaði um að skuldastaða þjóðarbúsins væri mikil. Það er rétt hjá hv. þingmanni að skuldir sjálfs ríkissjóðs, sem er lítill hluti af þessu dæmi öllu, eru lágar en heimilin skulda gríðarlegar upphæðir, á annað þúsund milljarða og bankarnir skulda líka gríðarlega. Staða bankanna gagnvart útlöndum hefur versnað eins og ég fór yfir. Ég vonast til þess að hv. þingmaður kynni sér þetta vegna þess að þetta skiptir verulega miklu máli. Ég vona líka að hann taki því betur en raun ber vitni hér þegar maður leggur til góðar tillögur, m.a. í heilbrigðismálum. Þau eru mesti útgjaldamálaflokkurinn og við eigum að taka öllum tillögum af jákvæðni, taka á því þegar menn fara illa með. Það má sjá í sjónvarpsþáttum þegar sjúklingar eru sendir á Saga Class til Danmerkur og til baka. Þjóðarbúið eða a.m.k. hið opinbera stendur uppi í plús vegna þess að lyfin eru svo miklu dýrari á Íslandi en í Danmörku. Það er verk að vinna í þessum málaflokki og ég vona að menn eigi eftir að taka þessum ábendingum betur en hingað til.

Hvað varðar tillöguflutninginn lögðum við til fjöldamargar tillögur í fyrra sem allar voru felldar, hvorki meira né minna en 42, (Gripið fram í: Það var í fyrra.) þannig að menn geta ekki kvartað.