139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég var spurður að því um daginn, af því að sumir telja að ég sé þokkalega vel að mér í íslensku, hvað væri orðhengilsháttur og hver væri sá orðhengill sem þessi háttur væri við kenndur. Ég verð að viðurkenna að mér vafðist aðeins tunga um tönn en tókst nú að svara því að lokum. En ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir að hafa fest það ekki bara í Alþingistíðindi heldur líka á myndræmur, á myndvélar, hvað þetta orð stendur fyrir og við hvað þessi háttur er kenndur, því að atkvæðaskýring mín sem hér var flutt og var skýring atkvæðis míns sem ég endurtók síðan í fjölmiðlum, aðspurður, stendur. Hún var fullkomlega rökleg á sínum tíma.

Hér hef ég þó af þessu tilefni eytt heilli mínútu í þessu andsvari þannig að hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur haft sitt fram án þess að svara spurningum mínum nema um það að segja að 5. gr. sé klárlega óhagstæð sakborningi sem hann þá skýrir síðar og ég sé ekki nein rök til í minni fávisku.

Önnur spurning sem rétt er þá að hann svari er þessi: Hann finnur að hinu sérstaka frumkvæði dómsmálaráðherra í þessu máli en hann hefur þó ekki borið brigður á það upphaf athugasemdanna að frumvarp þetta, sem samið er vissulega í ráðuneyti hæstv. ráðherra, byggist á tillögum sem forseti landsdóms sendi ráðuneytinu með bréfi sem dagsett er á þeim tíma sem þarna er tiltekinn. Hvað átti dómsmálaráðherra að gera við þetta bréf? Átti hann að framsenda það allsherjarnefnd, átti hann að fara að skipta sér af því sem allsherjarnefnd gerir? (SKK: Það gerir það verra.) Hvað hefði hv. þingmaður sagt ef farið hefði verið fram á það að allsherjarnefnd flytti mál sem þá tæki ekki nema tvær umræður í staðinn fyrir að það fái sinn venjulega gang í þinginu? Hvað hefði hann sagt þá? (Forseti hringir.) Hvað hefði verið grunsamlegt og tortryggilegt við það?