140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að halda þessu máli vakandi. Þetta var nefnt í gær þegar þessi könnun kom fram og það er mikilvægt að henni verði fylgt eftir, orsökin fyrir þessu skoðuð og hvernig megi þá bregðast við.

Ég tel sjálf að stóran hluta þessa megi rekja til skerðingar fæðingarorlofsins, að feður taki síður orlof og að konurnar séu meira heima. Það er miður. En það kemur ekki til af góðu, það varð að fara í þá aðgerð að skerða fæðingarorlofið hreinlega vegna þeirrar erfiðu stöðu sem við erum búin að vera í frá 2008, í hruninu. Einhvers staðar varð að bera niður. Þessi niðurskurður er að vísu mjög sársaukafullur eins og margar aðgerðir sem var farið í en varð því miður að fara í.

Ég tel mjög mikilvægt að ástæður þessa launabils, aukins munar milli launa karla og kvenna og þess að konur skuli lækka í launum og það þetta mikið, þurfi að greina vel og bregðast við. Ég heyrði ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra væri sama sinnis í gær og ég treysti því að hún muni standa þá vakt sem þarf og að við fáum hið allra fyrsta niðurstöðu í greiningu þessa.