149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:43]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég lagði aðeins við eyru í ræðu hv. þingmanns þegar hann ræddi um velgengni okkar í efnahagsmálum almennt og mikilvægi samkeppnishæfni landsins til lengri tíma litið. Ég var hugsi yfir þessu því að mér finnst gjarnan vera dregin upp, sérstaklega af stjórnarflokkum meiri hlutans, sú glansmynd að á Íslandi sé fortakslaust góðæri, eins og hæstv. samgönguráðherra orðaði það í dag, sem sjái ekki fyrir endann á. Á sama tíma horfum við á gríðarleg hættumerki víða í hagkerfinu, eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir, t.d. í ferðaþjónustu. Án þess að við séum að mála skrattann eitthvað sérstaklega á vegginn þá hafa horfur í ferðaþjónustu versnað til muna, horfur í flugrekstri, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir mjög vel til, hafa versnað til muna og ekki hvað síst hér á landi þar sem við höfum séð að bæði okkar flugfélög og alþjóðleg flugfélög eru í nokkrum vanda.

Það leiðir hugann að því hvort þetta séu ekki óraunhæfar væntingar um það hversu langt góðærið eigi að verða en ekki síður þegar kemur að samkeppnishæfni landsins. Það vekur athygli þegar maður skoðar t.d. tölur frá IMD í Sviss um þróun og samkeppnishæfni okkar að við erum beinlínis að falla og höfum í raun og veru staðið í stað í samkeppnishæfni undanfarin fimm ár í hinum fortakslausa og fordæmalausa hagvexti okkar. Við erum í 24. sæti í dag, vorum lengi vel í kringum topp tíu, getum við sagt, fyrir hrun. Við höfum aldrei náð okkur á strik á eftir. Ég velti fyrir mér hvað veldur því og hvaða skýringar hv. þingmaður hefur á þeirri stöðu okkar að þrátt fyrir mikinn efnahagslegan uppgang stöndum við ekki betur að vígi en þetta.