Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

skjaldarmerki frá 1881 á framhlið Alþingishússins.

43. mál
[18:01]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að hafa mál mitt knappt. Ég get ekki stillt mig um að upplýsa þá sem hér eru að hlusta um að í tíð tiltekinnar ríkisstjórnar á níunda áratugnum stóð til að kaupa fyrsta alvöruhótel Íslands, Hótel Borg, og gera það að skrifstofubyggingu fyrir þingmenn. Þá var nú sem betur fer til framsýnn maður og fagurkeri sem náði að koma í veg fyrir það með því hreinlega að kaupa Hótel Borg. Þetta var Tómas Andrés Tómasson í samstarfi við Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur. Þau sáu til þess að við misstum ekki þetta stærsta, fegursta hótel sem við höfðum átt þar áratugum saman, teiknað af Guðjóni Samúelssyni, rétt eins og Reykjavíkurapótek og Þjóðleikhúsið og margar þær byggingar sem nefndar hafa verið. Ég vil bara nota þetta tækifæri þó að það sé örlítið utan dagskrár til að þakka honum sérstaklega fyrir það, og þeim. Á meðan hann hefur farið í sína útrás með sitt veitingahúsaveldi með atfylgi sonar síns og fleiri hefur Ingibjörg Stefanía ákveðið að fjárfesta í Hverfisgötunni, sem var nú ekki kræsileg þegar hún byrjaði þar á að taka gamla Alþýðuhúsið í gegn, gera það að fallegu hóteli, 101, og síðan koll af kolli upp Hverfisgötu sem er að verða ein fegursta gata borgarinnar í dag. Þessu skal haldið til haga í umræðunni um breytta ásýnd Alþingishússins og miðborgarinnar.

Og í beinu framhaldi af þessu björgunarstarfi Tómasar og þeirra á sínum tíma var sem betur fer tekið mið af því hér í sjálfu nýrisnu Parliament hotel eða þinghóteli, sem er hér gamla Landssímahúsið, gegnt Hótel Borg og er búið að gera það hús núna og var hálfpartinn verið að vígja það með óformlegum hætti bara núna í nótt með þröngum hópi sérgesta. Það er látið speglast á við Hótel Borg, nákvæmlega sömu útlínur og sömu efni í þakið og annað, mjög virðingarvert framtak.

Að endingu vil ég segja að með öll þessi fallegu sögufrægu hús og allar þessar lágmyndir á fallegum húsum í miðborginni, Alþingishúsið meðtalið, þá ber okkur að virða það og hafa í huga að miðborg Reykjavíkur er fjölsóttasti staður Íslands, punktur. Áfangastaður allra ferðamanna, eða 90 og eitthvað prósent ferðamanna sem koma til Íslands fara í miðborgina. Það var kappsmál hér fyrir kannski tíu, tólf árum síðan að hafa þessa miðborg í þokkalegu lagi, hafa þetta ekki eins og einhvers konar glæpahverfi í stórborg í úthverfum, útkrotað og -graffað. Ég tók þátt í því verkefni að hreinsa það upp og árum saman var það í nokkuð góðu lagi. Það kostar um 800.000 kr. á mánuði að hafa einn mann í vinnu við að hafa þetta í lagi, sama hver á húsið sem verður fyrir skemmdarverkum eða skreytingum eftir atvikum, og þá þarf að greina á milli listaverka og barnakrots. Því miður hafa borgaryfirvöld hunsað þetta á undanförnum árum og það gengur upp bæði Hverfisgötu og niður Laugaveg og það er allt of mikið af viðbjóði, ljótleika, sem væri enginn vandi að hafa í lagi. Og hugsanlega þarf sjálft Alþingi að taka það að sér að vernda þennan fjölsóttasta stað Íslands fyrir þeim ljótleika sem er látinn viðgangast. Lýk ég þá máli mínu í þessum efnum og þakka kærlega fyrir.