133. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[00:23]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski fyrst rétt að leiðrétta hv. þingmann með það að skuldir ríkissjóðs séu að fara upp úr öllu valdi. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 77% á síðustu 10 árum og ríkissjóður er að verða skuldlaus. Það hefði verið betra, hæstv. forseti, ef hv. þingmaður hefði hlýtt á ræðu mína í dag. Þar sem klukkan er langt gengin í eitt að nóttu sé ég kannski ekki ástæðu til að endurtaka hana. (SigurjÞ: Jú, hún var góð.) Hún var góð, það er rétt eins og fram kemur hjá hv. þingmönnum. Vissulega var hún góð og ég held að hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefði haft gott af að hlýða á hana. Þar fór ég rækilega yfir það að það hefði tekið stjórnarandstöðuna sjö ár að koma sér saman um eitt sameiginlegt nefndarálit um frumvarp til fjárlaga og eina tillögu. Hv. þingmaður sagði að stjórnarandstaðan væri að flytja tillögur við fjárlagagerðina um lækkun lyfjakostnaðar. Hvar eru þær tillögur, hv. þingmaður? Hvar eru þær tillögur, hæstv. forseti?

Ég vek athygli á því að stjórnarandstaðan flytur engar tillögur í menntamálum, engar tillögur í félagsmálum og engar tillögur í heilbrigðismálum. Það er auðvitað von að stuðningsmaðurinn, þessi eini, í Skagafirði hafi haft samband við hv. þingmann og sagt að það væri rakinn dónaskapur að rekja þetta á hinu háa Alþingi. Þetta er samt satt, hvort sem menn trúa því eða ekki.

Hv. þingmaður sagði að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar legðu áherslu á velferðarkerfið og ætluðu að leggja til mikil fjárútgjöld. Hvernig kemur það heim og saman við hugmyndir hv. þingmanns um að skera niður (Forseti hringir.) ríkisútgjöld eins og hann hefur þó oft lagt áherslu á?