133. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[00:32]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Eins og staðan er núna sýnist mér stefna í að sú ræða sem ég ætla mér að flytja verði sú síðasta við 2. umr. nema einhverjir af þeim hv. þingmönnum sem eru í húsinu eða nágrenni þess setji sig aftur á (Gripið fram í.) mælendaskrá.

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan hefur við fjárlagagerð fyrir árið 2007 ákveðið að leggja alla áherslu á að bæta þegar á næsta ári stöðu og velferð eldri borgara og öryrkja. Þetta er í samræmi við þá stefnu sem Samfylkingin, Frjálslyndi flokkurinn og Vinstri græn lögðu til í þingsályktunartillögu um nýja framtíðarskipan lífeyrismála á þskj. 3 sem stjórnarandstöðuflokkarnir kynntu sameiginlega í upphafi þings í haust. Til að fjármagna þessa velferðarstefnu er lagt til að útgjöld ríkissjóðs til velferðarmála verði hækkuð um 7,4 milljarða kr. á næsta ári. Stjórnarandstöðuflokkarnir leggja ekki til aðrar tillögur til aukinna útgjalda við þessa fjárlagagerð. Við teljum hins vegar að svo mikla nauðsyn beri til að bæta þegar afkomu aldraðra og öryrkja að það mál eigi að fá algeran forgang nú þegar.

Þrátt fyrir að það takist að bæta hag aldraðra og öryrkja núna, þ.e. ef ríkisstjórnarflokkarnir fallast á að gera átak í þeim efnum með okkur í stjórnarandstöðunni, er samt sem áður mjög mikið óunnið í þessum málum á næstu árum. Við viljum, eins og komið hefur fram í máli mínu, tryggja til framtíðar að fólk í þessu landi sem hefur ekki neinar aðrar tekjur en lágmarksbætur Tryggingastofnunar ríkisins komist af í hverjum mánuði af þeim lágmarkstekjum sem öllum verði greitt úr tryggingakerfinu. Þess vegna þarf neyslukönnun eins og við mælumst til að verði gerð og markmið um afkomu, þ.e. rauntekjur eftir skatta til eðlilegs lífs.

Skattstefna þessarar ríkisstjórnar hefur einkennst af því í mörg ár að þeir sem hafa haft hærri tekjurnar í þjóðfélaginu hafa fengið aukinn ávinning til sinnar eyðslu og afkomu eftir skatta en þeir sem hafa verið í lægstu tekjuhópunum hafa borið meiri byrðar en áður var. Fram á þessa staðreynd hefur verið sýnt með mörgum rökum, m.a. af Stefáni Ólafssyni um skattbyrði eftir 10 tekjuhópum. Það er þess vegna ljóst, hæstv. forseti, að eftir næstu alþingiskosningar þarf ekki bara að fylgja eftir þeirri stefnumótun sem Samfylkingin, Frjálslyndi flokkurinn og Vinstri græn leggja svo mikla áherslu á í velferðarmálum, heldur þarf einnig að huga að því að skattbyrði lágtekjuhópa vaxi ekki og að rauntekjur þeirra eftir greiðslu skatta til ríkis og sveitarfélaga nægi til mannsæmandi lífs.

Fólk á ekki að þurfa að ganga við betlistaf á Íslandi, allra síst það fólk sem færði okkur nútímalífsgæði á Íslandi og er nú komið á efri ár. Það er engin ástæða til þess að auka hér á misskiptinguna meðal þegna þjóðfélagsins eins og því miður hefur átt sér stað að undanförnu. Ég hef oft undrast áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum, og það höfum við gert í Frjálslynda flokknum, einkum vegna þess að við urðum þess ekki vör þegar við áttum viðræður við þá sem miklar tekjur hafa að þeir vilji leggja sitt af mörkum svo að hér sé ekki fátækt meðal fólks.

Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggur frumvarp sem varðar verulega fjármál heimilanna, einkum þeirra sem búa á landsbyggðinni og eiga ekki aðgang að framhaldsskóla í sinni sveit eða næsta nágrenni. Þar er frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996. Í 4. gr. þess er lögð til veruleg breyting á 65. gr. laganna, að þar standi 18 ár í stað 16. Hvaða áhrif hefur þetta á tekjur fólks og ráðstöfunartekjur á heimilum?

Þá kemur að byggðastefnunni sem var samþykkt samhljóða síðasta vor af okkur þingmönnum með þeirri áherslu að efla menntun, sérstaklega á landsbyggðinni. Í 4. gr. þess frumvarps segir, með leyfi forseta:

„Í 65. gr. tekjuskattslaga er að finna heimild til lækkunar á tekjuskattsstofni. Samkvæmt 4. tölul. 65. gr. skal skattstjóri taka til greina umsókn manns um lækkun á tekjuskattsstofni ef hann hefur haft veruleg útgjöld af menntun barna sinna 16 ára og eldri. Í samræmi við breytingu á aldursmarki barnabóta er hér lagt til að aldursmarki ívilnunar vegna menntunarkostnaðar barna verði breytt úr 16 árum í 18 ár.“

Virðulegi forseti. Hér hlýtur maður að staldra við og velta fyrir sér hvað þetta skyldi þýða fyrir fjölskyldur á landsbyggðinni sem þurfa að kosta börn sín til menntunar um langan veg fjarri heimili sínu. Hvaða áhrif skyldi þetta hafa?

Í afar merkilegri samantekt sem þingmenn Norðvest. og menntamálaráðherra fengu varðandi kostnað fólks í Vesturbyggð við að senda börn sín í framhaldsskóla var sýnt fram á að kostnaður við að senda barn til framhaldsskólanáms af því svæði til Akureyrar væri 614 þús. kr. á ári, til Ísafjarðar 612 þús. kr. á ári, til Laugarvatns 400 þús. kr. á ári og til Reykjavíkur 1.068 þús. kr. á ári. Þar inni í var húsaleiga ásamt ferðakostnaði, en fyrst og fremst húsaleigan lyfti þessum kostnaði upp, einkum og sér í lagi í Reykjavík. Á móti þessum kostnaði hafa foreldrar á landsbyggðinni fengið vegna barna á framhaldsskólaaldri 92 þús. kr. á önn, þ.e. um 180 þús. kr. á ári.

Ég vek athygli á þessu, hæstv. forseti, vegna þess að mér finnst þessi tillaga ganga á skjön við stefnu okkar í byggðamálum. Hér er mikil mótsögn. Við samþykktum samhljóða að efla menntun á landsbyggðinni. Það gerðum við og þetta stangast algerlega á við það. Þótt hér sé væntanlega svarað — og þá var kominn tími til þess — beiðni fólks úr Vesturbyggð um að fá framhaldsdeild heima í héraði fyrir þá sem þar búa þarf fjöldi ungmenna utan af landi að sækja framhaldsskóla annað en í heimabyggð.

Ég átta mig bara ekki á því, hæstv. forseti, með tilliti til þess kostnaðar sem fylgir því að senda barn í skóla milli landshluta hvers vegna lagt er til í stjórnarfrumvarpi að frádráttur í skattalögum vegna námskostnaðar verði felldur niður. Ég fæ ekkert samhengi í þann tillöguflutning með tilliti til byggðaáætlunar og þess sem þar var samþykkt um að leggja áherslu á menntun á landsbyggðinni og þess máls sem hér var flutt og bíður nú afgreiðslu í nefnd. Frumvarpið lýtur að því að minnka útgjöld ríkisins og tengist því fjárlögum. Ég taldi sjálfsagt og rökrétt að athygli yrði vakin á þessu við fjáraukalagaumræðuna og vek máls á því nú við 2. umr. fjárlaga árið 2007 ef það gæti orðið til þess að ríkisstjórnin sæi að sér í þessu máli sem er náttúrlega vanhugsað af fjármálaráðherra og mjög óréttlátt gagnvart fólkinu á landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Sú breytingartillaga sem minni hluti fjárlaganefndar, þ.e. stjórnarandstaðan, leggur fram við þessa afgreiðslu fjárlaga kostar alls um 7,4 milljarða kr. á næsta ári nái hún fram að ganga. Það má gera ráð fyrir því að 25–30% af upphæðinni skili sér aftur til ríkissjóðs, þ.e. um 2 milljarðar kr. Við vitum að þær aðgerðir sem stjórnarandstaðan vill grípa til og kosta þessa peninga, rúma 7 milljarða, (Gripið fram í.) ganga fyrst og fremst til fólks sem er efnalítið og ég held að okkur sé óhætt að reikna með því að stærsti hlutinn af þessum peningum fari í neyslu, þ.e. að kaupa fæði og klæði og annað þess háttar. Við getum reiknað með því að verulegur hluti af þessari fjárhæð skili sér aftur í formi neysluskatta. Þumalfingursreglan segir 25–30% og mér skilst að hæstv. fjármálaráðherra hafi sjálfur nefnt þær prósentur í þessu samhengi. (SigurjÞ: Það er ekki alltaf að marka útreikninga hans.) Það er ekki alltaf að marka útreikninga hans, segir hv. þm. Sigurjón Þórðarson, og það mál vel vera að það sé rétt. Eflaust er þó nokkuð til í því.

Með hertu skatteftirliti má auka tekjur ríkissjóðs um 3,5 milljarða kr. Með þeim aðgerðum sem við leggjum til fyrir fólk svo að það geti aflað sér tekna án þess að til komi skerðingar, þ.e. ef við hækkum frítekjumarkið og gerum aðrar aðgerðir þannig að fólk geti unnið án þess að það komi til mikillar skerðingar á bótum, má reikna með vinnuhvatningu, að aðgerðirnar hvetji fólk til að vinna. Fólk borgar svo gjöld og skatta af launum sínum. Þannig mun eitthvað af peningum einnig skila sér inn í ríkissjóð á móti þeim peningum sem við leggjum til að fari í þá aðgerð sem liggur fyrir í breytingartillögu okkar í stjórnarandstöðunni.

Til viðbótar þessu má líka benda á það að einhvers staðar segir: Vinnan göfgar manninn. Ég held að það sé mjög mikið til í því, vinnan göfgar manninn. Ef fólk langar til að vinna, getur unnið, er ég ekki i neinum vafa um það að slíkt fólk verður ánægðara og það verður lengur gott til heilsunnar ef það fær að sinna störfum og jafnvel vera samvistum og í félagsskap við annað fólk, til að mynda á vinnustöðum. Maður er manns gaman, segir annað máltæki. Ég hygg að þetta muni draga úr kostnaði hins opinbera vegna elli og veikinda auk þess, eins og ég sagði áðan, sem skatttekjur munu aukast í framtíðinni með aukinni atvinnuþátttöku fólks. Mér finnst þetta, hvað eigum við að segja, heilbrigð skynsemi. Menn þurfa ekki alltaf að reikna allt í rot til að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Stundum eru hlutirnir svo augljósir að maður hreinlega framkvæmir þá. Það er ekkert flóknara en það. Ég held að í raun og veru geti allir fallist á þessi rök, jafnvel stjórnarliðar, þeir geti í raun og veru fallist á það að þó nokkur skynsemi sé í þessu. Hún er ekki alveg alvitlaus, hugsunin á bak við þetta, alls ekki.

Til viðbótar hygg ég líka, virðulegi forseti, að þessar aðgerðir mundu í raun og veru gera okkur kleift að nýta betur þann mannauð sem við höfum í landinu. Fólk sem býr við einhverja örorku eða fólk sem er kannski komið á eftirlaunaaldur getur farið út á vinnumarkaðinn og unnið létt störf, einhver hlutastörf og þar fram eftir götunum, til að mynda við verslun og þjónustu. Það mundi hjálpa til við að anna þeirri miklu eftirspurn sem virðist vera eftir fólki á vinnumarkaði og ég held að það væri mjög jákvætt. Þar af leiðandi gætum við nýtt fólk, íslenska borgara, til að sinna hér störfum og þyrftum ekki að flytja fólk inn í stórum stíl til þeirra starfa. Við vitum þetta öll og þekkjum vel af þeirri umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu undanfarnar vikur, umræðu sem við í Frjálslynda flokknum opnuðum á, með mjög góðum árangri verð ég að segja. Það hefur þegar leitt til þess að ríkisstjórnin hefur þó aðeins rankað við sér í þessum efnum. Ég hygg að ef við hefðum gert þetta strax í fyrra þegar við sáum að það væri þörf og mikil eftirspurn eftir vinnuafli hefðum við kannski getað sagt sem svo að það væri ekki alveg nauðsynlegt að kasta frá okkur möguleikunum til að fá frest á frjálsu flæði starfsfólks frá hinum nýju löndum Evrópusambandsins sem svo eru kölluð til að uppfylla skilyrði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég hef bent á það í umræðum og umræðuþáttum, virðulegi forseti, að með einföldum breytingum á skattkerfinu hefðum við hæglega getað gert breytingar sem hefðu gert okkur kleift að nýta betur þann mannauð sem er í landinu og þá um leið gert breytingar sem hjálpuðu fólki að hjálpa sér sjálft, sem við í Frjálslynda flokknum teljum afskaplega mikilvægt, þ.e. að fólk geti eftir fremsta megni fengið að hjálpa sér sjálft.

Mér hefur alltaf fundist mjög undarlegt og ég hef átt erfitt með að skilja það að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki leggja meiri áherslu á þetta, að flokkur sem leggur mikla áherslu á einkaframtakið og frelsi einstaklingsins, að einstaklingurinn hafi frelsi til athafna til að bjarga sér sjálfur á sínum eigin forsendum, skuli ekki geta tekið undir þetta með okkur í Frjálslynda flokknum. Það hefði verið mannsbragur að því að sjá það gerast, en því miður, ég verð að segja það, virðulegi forseti, hefur þetta oft valdið mér verulegum vonbrigðum. Í staðinn stendur Sjálfstæðisflokkurinn að því að setja upp skattgirðingar til þess nánast að koma í veg fyrir að fólk geti hjálpað sér sjálft, að fólk geti farið út á vinnumarkaðinn og aflað sér tekna. Þetta er á margan hátt mjög slæmt, mjög neikvætt, og þegar maður skoðar þetta í heild sinni held ég að það sé hreinlega óskynsamlegt að hafa þetta svona.

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað á þingmenn í dag og sérstaklega á þá stjórnarliða sem hafa haldið hér ræður. Ég tek eftir því að mjög fáir sjálfstæðismenn hafa tekið þátt í umræðum. Í augnablikinu kannast ég bara við að tveir hv. þingmenn frá Sjálfstæðisflokknum hafi tekið þátt í umræðum við 2. umr. fjárlaga, sem er náttúrlega afskaplega mikilvæg umræða. Hæstv. ráðherrar hafa verið afskaplega sjaldséðir hér og hefur lítið sést til þeirra í dag. Fjármálaráðherra var hér reyndar, enda ber honum skylda til þess, en það hefur mjög lítið borið á öðrum ráðherrum í dag. Það eru aðallega tveir framsóknarþingmenn sem hafa haft sig í frammi og staðið vaktina, ef svo má segja. Þeir hafa flutt ræður og síðan verið í andsvörum við þá stjórnarandstæðinga sem hafa talað. Mér finnst það í raun og veru svolítið dæmigert að það er eins og Framsóknarflokkurinn sé alltaf settur í vörnina fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Það er alltaf eins og framsóknarmenn séu látnir henda sér fyrir plóginn og verja ríkisstjórnina. Þegar verið er að afgreiða mál, jafnvel stór og þung mál eins og þetta, er það alltaf vesalings litli Framsóknarflokkurinn sem er látinn fórna sér og alltaf virðist vesalings litli Framsóknarflokkurinn vera jafnviljugur til að kasta sér á sverðið á meðan Sjálfstæðisflokkurinn situr og horfir á.

Þetta er einkennileg sambúð á stjórnarheimilinu, virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að fara að skipta mér neitt meira af einkalífi flokkanna í þessu merka hjónabandi en þetta vekur oft athygli mína og mér finnst þetta oft hafa verið æpandi í dag.

Þeir þingmenn sem hafa talað hér, sérstaklega hv. þingmenn Framsóknarflokksins, hafa gagnrýnt það mjög að við skulum einungis vera með eina tillögu, breytingartillögu við fjárlögin, og hafa kallað hástöfum eftir tillögum okkar varðandi menntakerfið, heilbrigðiskerfið og aðra þætti fjárlagafrumvarpsins. Hvar eru þær breytingartillögur? hafa þeir hrópað úr þessum ræðustól og vilja endilega fá að sjá þær.

Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, fulltrúi Frjálslynda flokksins í fjárlaganefnd, sem flutti hálftímaræðu í dag, afskaplega góða, kraftmikla og öfluga ræðu, hafi svarað því mjög vel hvernig stendur á því að stjórnarandstaðan kemur ekki hlaupandi með tugi breytingartillagna við fjárlagafrumvarpið. Reynslan hefur einfaldlega kennt okkur að við eigum ekkert að vera að skemmta stjórnarliðum með því að bera upp tillögur æ ofan í æ til þess eins að sjá þá fella þær eins og flugur.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson benti á það í ræðu sinni í dag að við afgreiðslu síðustu fjárlaga, þ.e. fyrir u.þ.b. ári síðan, hefðu verið bornar upp hvorki meira né minna en 42 breytingartillögur við fjárlögin og þær voru allar felldar, hver og ein einasta. Ekkert komst í gegnum múrinn hjá stjórnarliðum. Það var alveg sama hversu góðar tillögurnar voru, alveg sama hversu góð rök menn færðu fyrir máli sínu, alveg sama hversu snjallar ræður voru fluttar úr stólnum, það skipti engu máli, þetta var allt saman kolfellt. Og ég verð að segja, virðulegi forseti, að enda þótt ég hafi ekki setið lengi á þingi, ég er einungis búinn að vera hér í rúmlega þrjú ár, þá hef ég þó lært eitt og það er að frumvörp stjórnarandstæðinga, þingmál stjórnarandstæðinga, sama hversu góð þau eru og sama hversu skynsamlegar breytingartillögur þeirra við frumvörp stjórnarliða eru, þetta er allt saman fellt, því miður. Þetta er hefð sem hefur komist á á Íslandi, hálfundarleg hefð sem eflaust skapast af því að hér hafa ávallt verið meirihlutastjórnir sem hafa haft alla þræði í hendi sér, hafa haft völdin í hendi sér og getað stjórnað eins og þær lystir í krafti meiri hluta.

Hér hefur aldrei verið minnihlutastjórn sem hefur þurft að stjórna landinu í skjóli þingsins, ef svo má segja, og ég hygg að það væri kannski hollt fyrir okkur Íslendinga að prófa það fyrirkomulag eins og einu sinni. Slíkar stjórnir hafa til að mynda verið við völd í nágrannalöndunum og það hefur gengið afskaplega vel að stjórna í þeim löndum. Ég minni t.d. á Noreg, þar sem ég þekki vel til, þar sem minnihlutastjórnir hafa iðulega setið að störfum árum saman og þar blómstrar landið, þar blómstrar efnahagurinn. Noregur er eitt mesta velferðarríki heims og gengur ákaflega vel, þetta er fyrirmyndarland. Það er ekki eins og þar hafi allt farið í kaldakol þó að þar hafi starfað minnihlutastjórnir í skjóli þingsins, jafnvel þriggja flokka stjórnir og jafnvel þaðan af fleiri. Hér á landi fussa menn og sveia ef talað er um stjórnir sem samanstanda af fleiri en tveimur flokkum og telja það alveg ómögulegt. Ég tel reyndar að það sé mikil bábilja og tóm vitleysa að tala um slíkt. Menn bera þá við reynslu af ríkisstjórnum sem voru á Íslandi fyrir 20 eða 25 árum eða þaðan af lengra síðan. Það er ekki samanburðarhæft að bera saman stjórnmálaflokka sem voru þá til, persónur sem voru í íslenskum stjórnmálum þá í þjóðfélagi sem var í raun allt öðruvísi en þjóðfélag okkar í dag, að ætla að bera það saman við nútímann og setja samasemmerki þar á milli, hrista höfuðið og segja: Nei, þetta mun aldrei ganga, þetta er ómögulegt. Ég er ekki sammála slíkri pólitískri greiningu á Íslandi árið 2006, virðulegi forseti, alls ekki.

Við í stjórnarandstöðunni sem höfum talað fyrir okkar málum í dag höfum gert það af góðum hug. Við höfum mælt fyrir áðurnefndri breytingartillögu okkar og talað um fjárlögin, menn hafa komið víða við, flutt málefnalegar og góðar ræður og margt athyglisvert hefur komið í ljós. Við lok þessarar umræðu vil ég lýsa því yfir að við í stjórnarandstöðuflokkunum viljum svo sannarlega trúa því í lengstu lög, virðulegi forseti, að stjórnarþingmenn fallist á rök okkar í stjórnarandstöðunni um að hér sé á ferðinni mál sem eigi skilið að fá stuðning og forgang við afgreiðslu fjárlaga árið 2007, þ.e. hækkunin til lífeyrisþega, og að þessar sameiginlegu tillögur okkar í stjórnarandstöðunni eigi það skilið að fá afgreiðslu.

Það er a.m.k. afskaplega dapurlegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra tala eins og hann talaði í fréttum í dag þar sem hann lýsti hreinu frati, virðulegi forseti, á þessar tillögur og fann þeim allt til foráttu. Þær eru nefnilega ekkert svo vitlausar, þær eru alls ekki óskynsamlegar. Það er ekki eins og verið sé að æða út í tóma vitleysu og stofna til stórkostlegs kostnaðar fyrir ríkissjóð, alls ekki. Ég hef farið yfir það í máli mínu, virðulegi forseti, að þegar upp verður staðið muni þetta sennilega verða mjög góð fjárfesting. Þessir 7 milljarðar munu skila sér aftur til baka og gott betur til lengri tíma litið.

Ég hyggst nú koma aðeins að öðrum málum varðandi afgreiðsluna á fjárlagafrumvarpinu. Ég hef í fyrri hluta ræðu minnar farið yfir tillögur okkar í stjórnarandstöðunni, breytingartillöguna, rætt um hvers vegna við komum ekki með fleiri breytingartillögur og fært rök fyrir máli mínu. Ég vil fá að koma hér að einu máli sem hefur valdið mér miklum vonbrigðum í þessu frumvarpi. Það er sértækt mál sem varðar sjúkrahús úti á landi. Málið er það, virðulegi forseti, að sjúkrahúsinu og heilsugæslustöðinni á Akranesi, þessari merkilegu og ágætu heilbrigðisstofnun, sem er ákaflega vel rekin, hefur verið synjað um að fá auknar fjárveitingar við afgreiðslu þessa fjárlagafrumvarps. Mér finnst það mjög slæmt. Það væri gaman að fá að heyra útskýringar á því hjá formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Birki J. Jónssyni, sem ég sé að gengur í salinn, hvernig standi á því að ekki var hægt að verða við beiðni forstjóra Sjúkrahúss Akraness, Guðjóns Brjánssonar, og starfsfólks hans, fólks sem hefur staðið sig ákaflega vel í rekstri sjúkrahússins, sem hefur því miður lent í hallarekstri. Hvernig stendur á því að ekki var hægt að verða við þessari beiðni? Mér er kunnugt um að forstjóri Sjúkrahúss Akraness hafi komið á fund fjárlaganefndar og talað fyrir þessu máli. Mér var líka sagt frá því áðan að önnur sjúkrahús á landsbyggðinni hefðu jafnvel fengið auknar fjárveitingar en að ekki hafi verið farið eftir þessari frómu ósk frá þeim á Akranesi.

Mér finnst það svolítið undarleg ákvörðun vegna þess að Sjúkrahús Akraness er, eins og ég sagði, ákaflega gott sjúkrahús. Þetta er eitt af þeim sjúkrahúsum sem eru í grennd við höfuðborgarsvæðið, Stór-Reykjavíkursvæðið. Við höfum þrjú slík sjúkrahús. Það er Sjúkrahúsið á Akranesi, Sjúkrahúsið á Selfossi og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Allar þessar sjúkrastofnanir gegna á margan hátt mjög mikilvægu hlutverki. Þær taka oft kúfinn ofan af því sem er á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að Sjúkrahúsið á Akranesi hefur staðið sig vel í ýmsum aðgerðum og hefur til að mynda tekið við fæðandi konum, konur af höfuðborgarsvæðinu hafa fætt uppi á Akranesi. Og ég vil minna á, af því að það eru framsóknarmenn í salnum sem gætu kannski svarað fyrir þetta, að það eru ekki mörg ár síðan sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi fengu sérstök verðlaun frá fjármálaráðuneytinu vegna þess að þessi stofnun þótti til fyrirmyndar í ríkisrekstri. Það var árið 2004.

Þessi stofnun, sem hefur fengið lof og hrós stjórnvalda, stofnun sem hefur verið til fyrirmyndar í rekstri, er núna skilin eftir í halla. Guðjón Brjánsson, forstjóri sjúkrahússins, lýsir því yfir að þetta muni sennilega þýða það að grípa þurfi til fækkunar á aðgerðum, að loka þurfi deildum í sumar og að jafnvel þurfi að segja upp starfsfólki. Mér finnst mjög slæmt og dapurlegt að heyra þetta. Það er enn tækifæri til að bæta ráð sitt, það er hægt að bæta úr þessu milli 2. og 3. umr. Ég vona svo sannarlega að hv. formaður fjárlaganefndar sýni þann drengskap að bæta úr þessu þannig að fólk þurfi ekki að upplifa þetta á þessu ágæta sjúkrahúsi, að menn taki þetta virkilega til skoðunar á milli 2. og 3. umr. og þarna verði bætt úr því að þessi stofnun á þetta alls ekki skilið.

Virðulegi forseti. Nú þegar ég hef komið þessari athugasemd minni á framfæri, þá vil ég að lokum fá að þakka eitt af því sem er þó vel gert í frumvarpinu. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að gera það.

Þannig er mál með vexti að ég er varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Akraness fyrir hönd Frjálslynda flokksins. Frjálslyndi flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn unnu mikla sigra í sveitarstjórnarkosningunum í vor og mynduðu að loknum kosningum nýjan meiri hluta í bæjarstjórn Akraness. Ég vil fá að nota tækifærið hér, virðulegi forseti, til að koma á framfæri þökkum til hæstv. menntamálaráðherra og fjárlaganefndar fyrir að hafa gefið grænt ljós á að nú verði settir peningar með skipulegum hætti í að kútter Sigurfari sem stendur á Akranesi verði endurbyggður.

Í því fjárlagafrumvarpi sem hér er til afgreiðslu er rætt um 12 millj. kr. greiðslu sem verður þá fyrsta greiðslan af fimm greiðslum samkvæmt samningi sem hefur verið gerður við hæstv. menntamálaráðherra. Heildarupphæðin verður að lokum 60 millj. kr. og þeim peningum verður varið til þess að endursmíða kútter Sigurfara á Akranesi. Þetta er að sjálfsögðu mjög höfðinglega og vel að verki staðið, virðulegi forseti, og full ástæða til að þakka, sérstaklega hæstv. menntamálaráðherra fyrir að hafa brugðist svona vel við.

Málefni þessa skips hafa verið í miklum ólestri. Það kom hingað frá Færeyjum árið 1976, ef ég man rétt, og var þá tekið á land og því var breytt. Það voru stórhuga, miklir dugnaðarforkar, dugnaðarmenn í Kiwanisklúbbnum á Akranesi sem stóðu að því. Það var lyft grettistaki í því að gera þetta skip upp og reyna eftir fremsta megni að færa það í upprunalegt horf. Það hefur staðið allar götur síðan við byggðasafnið að Görðum á Akranesi, verið þar svona hálfgert kennileiti og einkenni fyrir Akranesbæ, enda tignarleg sjón að sjá.

En því miður er það nú þannig með tréskip að ef þau eru tekin á land þá skemmast þau fljótt. Tímans tönn hefur unnið hratt á kútter Sigurfara og ástand hans er orðið mjög bágborið, sem er náttúrlega mjög sorglegt vegna þess að þetta skip er jú eini kútterinn sem við Íslendingar eigum eftir af öllum þeim kútterum sem við áttum. Þessi skip komu okkur sem þjóð til bjargar á sínum tíma. Þetta er eini kútterinn sem við eigum eftir af þeim kútterum sem voru á Íslandi og er náttúrlega þjóðargersemi. Þetta skip er mjög mikilvægt, það er hluti af menningararfi okkar og það er því fyllilega kominn tími til, þó fyrr hefði verið, að gert verði stórátak í því að gera við það.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lengi haft mjög mikinn áhuga á því að það yrði gert eitthvað fyrir þetta skip. Við höfum ítrekað nefnt það í þingræðum á þessu kjörtímabili og kallað eftir því að eitthvað yrði aðhafst í málefnum skipsins. Við töluðum líka um það í kosningabaráttunni á Akranesi í vor að við ætluðum, ef við kæmumst til valda, að gera átak varðandi þetta skip.

Ég vil fá að nefna sérstaklega hér og nú dugnað og elju tveggja bæjarfulltrúa, þ.e. Karenar Jónsdóttur, fulltrúa Frjálslynda flokksins í bæjarstjórn Akraness og formann bæjarráðs, og Gunnars Sigurðssonar, sem er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og forseti bæjarstjórnar og síðan Gísla S. Einarssonar bæjarstjóra. Þau þrjú hafa staðið sig virkilega vel á undanförnum mánuðum í því að þetta yrði loksins að veruleika, að okkur tækist að bjarga skipinu.

Virðulegi forseti. Örfá orð um það hverjar fyrirætlanirnar eru núna. Ég tel mig loksins geta greint frá því opinberlega hver hugsunin er á bak við þær. Hugmyndin á bak við þetta var sú, ef ég rek forsögu málsins, þá fór ég núna í haust, í september, til Færeyja, að ná í annað skip sem heitir Höfrungur og var smíðað á Akranesi 1929 og færa það heim til Íslands. Við ætlum að gera það. Þetta skip var ekki í nógu góðu ástandi til að sigla því heim núna en við hyggjumst sigla því heim næsta vor og sjá til þess að sá bátur verði gerður upp. Þetta er einn af fyrstu mótorbátunum. Einn af fyrstu trébátunum sem voru smíðaðir með mótor á Íslandi. Fyrsta tréskipið stóra sem var smíðað á Akranesi og eitt af fyrstu skipum hinnar merku útgerðar Haraldar Böðvarssonar og co. Afskaplega merkilegur bátur.

En í sömu ferð og ég fór þarna ásamt góðum mönnum, þá skoðaði ég einmitt kútter sem Færeyingar hafa gert upp, kútter sem heitir Westward Ho sem er jafngamall og kútter Sigurfari. Það skip var orðið svo illa farið á sínum tíma að fyrir nokkrum árum sökk það hreinlega í höfninni í Þórshöfn í Færeyjum. Færeyingar tóku sig til og söfnuðu fé, nægilega miklu til að gera þeim kleift að senda skipið til skipasmíðastöðvar í Skotlandi sem sérhæfir sig í að gera upp gömul tréskip.

Skipið kom aftur heim til Færeyja nú í vor, í maí, eftir að hafa verið í Skotlandi í nokkur ár þar sem það var endursmíðað. Við fórum og skoðuðum þetta skip nú í haust. Ég verð að segja það að hér var einfaldlega sjón sögu ríkari. Það var afskaplega glæsilegt og stórkostlegt að sjá hve svona skip eru falleg og glæsileg þegar þau eru með fullum búnaði, rá og reiða. Þegar þau eru í sínu rétta umhverfi, þ.e. fljótandi á sjónum.

Þessi kútter, Westward Ho, liggur nú í Þórshöfn í Færeyjum. Þórshafnarbær hefur yfirtekið skipið. Það er nú notað til þess að sigla með ferðamenn, sigla með gesti sem koma til Færeyja og notað sem eins konar móttökuskip fyrir fólk sem kemur til Færeyja og Færeyingar vinir okkar og frændur vilja gera vel við.

Hugmynd okkar á Akranesi er sú að kútter Sigurfari verð tekinn af stæði sínu, þar sem hann hefur staðið frá 1976, í 30 ár, við byggðasafnið á Görðum, verði fluttur erlendis og leitað verði tilboða í að endursmíða skipið. Það eru nokkrar skipasmíðastöðvar í nágrannalöndunum sem sjá um þetta. Þeir sem hafa kunnáttu og tækjabúnað til að smíða tréskip og geta tekið svona verkefni að sér geta gert þetta með miklum sóma. Hugmyndin er að kútter Sigurfari verði gerður upp þannig að hægt verði að sigla honum á nýjan leik.

Draumurinn er sá, virðulegi forseti, að eftir nokkur ár, kannski fimm, sex ár, þá munum við enn á ný sjá kútter sigla seglum þöndum við Íslandsstrendur, kútter sem siglt er af Íslendingum. Við sjáum hann sigla um sundin blá, um Faxaflóa, inn í Hvalfjörð og þetta skip verði hægt að nota til þess að þjálfa fólk í því að sigla seglskipum en sú kunnátta er varla til lengur á Íslandi. Að skipið verði notað til að sigla með ferðamenn. Að skipið verði notað við opinberar móttökur og til að taka á móti tignum gestum sem hingað koma, jafnvel fara með þá í stuttar ferðir. Þannig að þetta skip verði aftur í raun og veru yndisauki fyrir okkur öll Íslendinga sem þjóð og minni okkur á þennan menningararf okkar, minni okkur á þá merku fortíð sem skútuöldin var.

Með samstilltu átaki er þetta vel gerlegt, virðulegi forseti. Kútter Sigurfari mun áfram eiga heimahöfn á Akranesi og hann mun verða geymdur þar. Þær 60 milljónir sem nú koma til verkefnisins verða sem sagt notaðar til þess að endurgera skipið. Akranesbær mun leggja fé til á móti þannig að hægt verði að ljúka verkefninu. Og við vonum að sjálfsögðu að í framtíðinni verði hægt að fá einhverjar tekjur inn á skipið og hugsanlega vilji ríkið einnig koma að rekstri skipsins í framtíðinni, því þetta skip er, þó það sé á Akranesi og muni eiga þar heimahöfn, að sjálfsögðu eign þjóðarinnar og þjóðargersemi sem slíkt og því ákaflega mikilvægt að við Íslendingar stöndum öll vörð um það og sjáum til þess að það haldi bæði reisn sinni og fegurð til framtíðar.

Virðulegi forseti. Mig langaði til að koma inn á þetta í ræðu minni, geta þess og þakka enn og aftur fyrir þetta höfðingsbragð, að ríkið skuli nú loksins koma með myndarlegum hætti að þessu þannig að hægt verði að endurgera kútter Sigurfara.

Vonandi verður þetta fyrsta skrefið af þó nokkrum skrefum sem við Íslendingar þurfum og verðum að taka núna varðandi verndun gamalla skipa. Því miður hefur mörgum skipum verið fargað, mörgum skipum sem geymt hafa merkar heimildir um bæði verklag og atvinnusögu Íslands, skipum sem hafa verið hluti af menningararfi okkar. Þetta eru skip sem þær kynslóðir sem gengið hafa á undan okkur notuðu til þess að koma fótunum undir þjóðina, sjá til þess að við yrðum bjargálna þjóð að nýju.

Við þurfum að gera það upp við okkur, virðulegi forseti, og kannski við hér á Alþingi, hverju við ætlum að bjarga. Það eru kannski ekki mörg skip sem við þurfum að bjarga til framtíðar en við þurfum að gera upp við okkur og móta með okkur áætlun um það hverju við ætlum að bjarga og síðan gera skipulega áætlun um hvernig við ætlum að fara í það verkefni.

Þetta eru kannski 10, 15 bátar, allt í allt. Að okkur takist með þeim hætti að tryggja okkur eintök af þessum skipum, bæði fyrir okkur sjálf og afkomendur okkar til framtíðar. Við munum eiga þau í framtíðinni og þau yrðu í sínu rétta umhverfi, flest þeirra, sérstaklega þau stærri, þ.e. þau verði á floti og þeim verði siglt. Ég tel að þetta sé ákaflega mikilvægt.

En tíminn er orðinn naumur fyrir okkur. Það eru ekki margir bátar eftir. Báturinn sem ég minntist á áðan, sem hét Höfrungur og var frá Akranesi hann er sá eini sem eftir er á floti af fjölmörgum trébátum sem voru smíðaðir á Akranesi á síðustu öld. Hann er sá elsti. Hann var smíðaður 1929. Ég hygg að ef hann yrði gerður upp og færður aftur til fyrri vegs og virðingar, færður í sitt upprunalega horf, þá yrði kútterinn í raun og veru elsta tréskip Íslendinga og sennilega yrði þá Höfrungur sem Akurnesingar eignuðust næstelstur.

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að þreyta þingheim með meira spjalli um þetta mikla áhugamál mitt og okkar í Frjálslynda flokknum. Það bíður betri tíma. Ég sé að nú líður að nóttu og læt því lokið ræðu minni við 2. umr. fjárlaga.