139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. dómsmálaráðherra ekki skilja eðli málsins. Í félagsdómi eru t.d. dæmdar ólögmætar vinnustöðvanir og mál sem snúa að ólöglegum vinnusamningum en landsdómur skal dæma í málum þegar Alþingi ákveður að höfða mál gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra. Þá eru það mál sem eru saknæm samkvæmt íslenskum rétti og eru mjög alvarleg. Ég er að tala um að landsdómur er raunverulega jafnsettur og Hæstiréttur. Þess vegna finnst mér afar einkennilegt að verið sé að sækja réttarheimild til félagsdóms, sem er mun lægra settur réttur en nokkurn tímann landsdómur, til rökstuðnings þess að hægt sé kjósa og framlengja það embættisverk sem þeir aðilar sem nú sitja í landsdómi — og rétt er að geta þess að einhver hluti (Forseti hringir.) þess fólks sem nú situr í landsdómi er kominn langt yfir aldursskilyrði. Það er hvort sem er ekki hægt að framlengja (Forseti hringir.) skipunina í landsdóminn vegna aldursákvæðisins.