145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

undirbúningur búvörusamninga og minnkuð tollvernd.

161. mál
[17:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er einfalt mál hvað fyrir mér vakir þegar ég spyr hvort þær greinar sem verða væntanlega fyrir mestum áhrifum af tollasamningunum fái einhvers konar aðlögunarstuðningstíma, aðallega garðyrkjan. Þá er ég að vísa til þess að þarna er um verulega breytt starfsumhverfi að ræða og verulegar áskoranir fyrir þessar greinar. Ég óttast það að fái þær ekki fyrirheit um einhverja aðlögun með stuðningi þá geti það leitt til mjög neikvæðrar þróunar, m.a. óvissunnar vegna. Ég gæti hugsað mér þetta sem tvíþætt. Annars vegar ákveðið aðlögunartímabil þar sem þeim væri heitið tilteknum stuðningi eða starfsskilyrðum og hins vegar stuðningi við að takast á við áskoranir eins og þær að innleiða nýjar og mjög hertar aðbúnaðarreglugerðir.

Mínar spurningar eru frá sjónarhóli manns sem er mjög velviljaður innlendum landbúnaði, innlendri matvælaframleiðslu og matvælaiðnaði. Ég er bjargsannfærður um það að Íslendingar væru að gera mikil mistök ef þeir létu þá framleiðslu sem þó er á matvælum og iðnað henni tengdum drabbast niður í hverfulum heimi þar sem við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum, óstöðugleika, fólksfjölgun, krefjandi umhverfisaðstæðum vegna hlýnunar jarðar og svo framvegis.

Ég nefni sjálfbæra þróun. Ef við ætlum að standa undir nafni þá hljótum við að leggja áherslu á það sem við getum þó verið sjálfbjarga um í þessum efnum og draga úr mengandi flutningi og einhæfni sem gjarnan vill leiða af markaðsdrifnum verksmiðjubúskap, það sem á erlendum málum, frú forseti, er stundum kallað „monoculture“. Þvert á móti eigum við að reyna að stefna að því að auka fjölbreytnina og hlúa að hvers kyns þróun í þessum greinum. Ég er svo gjörsamlega sannfærður um að eftir því sem lengra líður á öldina mun mikilvægi þessa renna upp fyrir okkur. Það á ekki að þurfa hrun til að menn muni allt í einu eftir því hvers virði það þó er að vera sér sjálfbjarga að einhverju leyti í þessum efnum. (Forseti hringir.) En það var jú mjög í tísku eins og kunnugt er fyrst eftir hrunið að tala um að við hefðum þó alla vega landbúnaðinn og matvælin sem við framleiddum þar og fiskinn í sjónum þannig að við mundum ekki svelta úr hungri, alla vega ekki í bráð.