151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum gagnrýnt harðlega fjárlög og áherslur ríkisstjórnarinnar sem beinast að okkar mati að því að bjarga sumum fyrirtækjum frekar en heimilum, að lækka skatta á eignafólk og mismuna fólki í atvinnuleysistryggingum eftir því hvort það missti vinnuna mánuðinum fyrr eða síðar.

Sum mál ríkisstjórnarinnar styðjum við, jafnvel frekar en ríkisstjórnin sjálf. Þar má t.d. nefna frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um stuðning við fjölmiðla sem nú er enn eitt árið að gufa upp hér á þingi. Mikilvægi fjölmiðla í samfélagi okkar verður aldrei nógsamlega undirstrikað. Við erum að tala um alls konar fjölmiðla, litla, stóra, fámenna, fjölmenna, netmiðla, vefmiðla, hljóðmiðla, myndmiðla, héraðsmiðla og landsmiðla. Þetta er allt mjög mikilvægt að þrífist í opnu en viðkvæmu lýðræðissamfélagi, hvort sem er í einkaeigu, einkarekstri eða þá að við séum að tala um Ríkisútvarpið. Við í Samfylkingunni erum reyndar með breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um 160 millj. kr. framlag til að bæta upp útvarpsgjaldið. Þessir fjölmiðlar okkar eiga í mjög ójafnri samkeppni við alþjóðlega risa sem greiða ekki skatta eða önnur gjöld hér á landi og lítil þjóðríki eins og okkar hafa ekki bolmagn til að standa uppi í hárinu á þessum risum. Þess vegna hef ég sent fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um það hvort og hvernig íslensk stjórnvöld hafi fylgst með viðleitni Evrópusambandsins til að koma þessum fyrirtækjum til að greiða eðlileg gjöld af starfsemi sinni og hvort Íslendingar ætli ekki að hagnýta sér þá vinnu.

Herra forseti. Ég hlakka til að fá loksins frumvarpið um fjölmiðla og ég held að mér sé óhætt að fullyrða að væri hæstv. menntamálaráðherra (Forseti hringir.) í stjórnarsamstarfi með okkur í Samfylkingunni (Forseti hringir.) þá myndum við ekki standa í vegi fyrir framgangi þess máls.