131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:33]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur komið í ljós í umræðum sem hafa farið fram hér í dag, og í andsvörum við hæstv. ráðherra, að hér er um hreina og klára skólagjaldatöku að ræða. Í þokkabót er hún ekki lánshæf, þetta er því gjaldtaka sem rýrir kjör námsmanna með beinum hætti. Ráðherra svaraði því engu hvort hugsanlegt yrði að skólagjöld við ríkisháskólana þrjá yrðu lánshæf, en ekki undanþegin frá lánum eins og nú er.

Í þessum þremur frumvörpum, um breytingu á lögum um Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands, er klárlega verið að velta hluta af rekstrarvanda ríkisháskólanna þriggja yfir á nemendur. Skólarnir hafa verið fjársveltir um langt árabil, eins og margoft hefur komið fram, og á hverju hausti við fjárlagagerðina. Því fer fjarri að nemendaígildum sé mætt og rekstrarvandi þessara þriggja þjóðskóla hefur safnast upp svo hundruðum milljóna nemur. Þá grípa menn það sem hægt er að grípa í og hvort sem það kallast skráningargjöld eða annað.

Svör hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við rekstrarvanda háskólanna og ásókn í þá eru 40% hækkun skólagjalda í þessa þrjá skóla. Það er það sem hér um ræðir og akkúrat ekkert annað. Upptalning á því sem á bak við hið meinta skrásetningargjald stendur afhjúpar einungis þann skrípaleik sem er í gangi, því hér er verið að fara í feluleik af því að stjórnvöld þora ekki að horfast í augu við að þau séu að taka upp skólagjöld í grunnnám við ríkisháskólana þrjá. Það er kjarni málsins, virðulegi forseti. Skólagjöld, 40% hækkun skólagjalda í ríkisháskólana þrjá.

Það er alveg með ólíkindum að lesa upptalninguna í frumvörpunum um það sem liggur að baki hinu meinta skráningargjaldi. „Hækkun á raunkostnaði vegna skráningar í skólana,“ segja stjórnvöld. Því fer fjarri að þetta hafi nokkuð með skráningu nemenda í skólana að gera, enda er flest annað en bein og hrein kennsla tínt til svo hægt sé að ná þessari tölu, t.d. prentarakostnaður, bókasafnsrekstur, framlög til samtaka og stofnana stúdenta, skrifstofa kennslusviðs, þjónusta alþjóðaskrifstofu, aðgangur að bókasafni og lesaðstöðu, aðstaða og stjórn og reiknuð gjöld, 12% af liðum 1–9 o.s.frv.

Hér er allt tínt til til að fá ákveðna tölu í því skyni að létta á rekstrarvanda skólanna með því að velta honum yfir á nemendur. Án þess að tekin sé pólitísk umræða um hvort taka eigi upp skólagjöld á háskólastigi eða ekki.

Þegar verið er að tala um gjaldtöku í háskólanum skiptir engu máli hvort um er að ræða gjaldtöku af kennslu eða öðrum rekstrarþáttum þeirra. Þar sem skólagjöld eru innheimt til að standa að hluta til undir rekstri háskóla, hvort sem það er hér á landi eða erlendis, fara þau einfaldlega í rekstur skólanna. Þar er enginn greinarmunur gerður á hvort þessi króna eigi að fara í kennslu og hin krónan í aðra rekstrarþætti skólans. Það skiptir nákvæmlega engu máli, virðulegi forseti. Gjaldtaka er gjaldtaka og menn skulu kalla hana það, alveg sama hvaða nöfnum hún nefnist. Það skiptir ekki nokkru máli hvort fjármunirnir sem aflað er með henni renna til greiðslu á kennsluþáttum í rekstri háskólanna eða í annan kostnað. Það er greinarmunur sem ég hef aldrei skilið og botna ekki í af hverju er verið að reyna að fela skólagjaldatökuna undir öðrum flöggum eða undir öðrum og undarlegri nöfnum, eins og ekki sé um gagnsæja, hreina og klára gjaldtöku að ræða.

Margt annað undarlegt má nefna í þessu samhengi, eins og hv. þm. Mörður Árnason kom inn á áðan, t.d. hvort um er að ræða skatt, þ.e. skatta á nemendur, eða þjónustugjöld, því þjónustugjöld lúta allt öðrum lögmálum en það sem hér um ræðir hefur lagalegt ígildi skatts. Ef um þjónustugjöld væri að ræða þá væri það ekki skilgreind upphæð í lögunum heldur mætti sú upphæð einungis ná til þeirrar þjónustu sem innheimtugjaldið væri sett á. Þá þyrfti ekki að búa til einhverja regnhlíf yfir skrípaleik og innheimtu skólagjalda eins og hér um ræðir.

Allt um það, þetta afhjúpar greinilega skrípaleikinn sem er hér á ferð, að það sé verið að taka upp skólagjöld í grunnnám í ríkisháskólunum þremur, skólagjöld sem er ekki lánað fyrir, 40% hækkun skólagjalda í einu lagi.

Þá hljótum við að kalla sérstaklega eftir viðhorfum Framsóknarflokksins, sem er annar stjórnarflokkanna tveggja, sem hlýtur að bera jafnmikla ábyrgð á þessari 40% hækkun skólagjalda og Sjálfstæðisflokkurinn. Þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn fari með menntamálaráðuneytið í þessari ríkisstjórn þá hlýtur Framsóknarflokkurinn að gera sérstaka grein fyrir því hvar, hvenær og hvers vegna flokkurinn hafi látið af þeirri stefnu sinni að hann ætli ekki og muni aldrei heimila innheimtu skólagjalda í ríkisháskólana. Þar hefur Framsóknarflokkurinn ekki gert neinn greinarmun á grunnnámi eða framhaldsnámi, eins og ýmsir aðrir hafa gert, heldur hefur Framsóknarflokkurinn afdráttarlaust hafnað því að innheimt verði skólagjöld í ríkisháskólana, svo einfalt er það mál.

Þess vegna hljótum við að kalla eftir því að annar af tveimur fulltrúum flokksins í menntamálanefnd verði hérna við umræðuna. Ég veit að hv. varaformaður menntamálanefndar er erlendis og getur því ekki tekið þátt í umræðunni, en hv. þm. og þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Hjálmar Árnason, hlýtur þá að koma og gera okkur grein fyrir þeirri meginstefnubreytingu Framsóknarflokksins, að hann hafi fallist á það í ríkisstjórninni að innheimt verði skólagjöld við ríkisháskólana, hafi fallist á 40% hækkun skólagjalda. Framsóknarflokkurinn hlýtur að koma og svara því klárt og kvitt, nema hann sé í sama feluleiknum og hæstv. menntamálaráðherra, að þora ekki að horfa í augun á þjóðinni og segja að hér sé um að ræða skólagjaldatöku á grunnnámi við ríkisháskólana þrjá. Við hljótum að kalla eftir skýrum svörum frá Framsóknarflokknum um þetta.

Þá hlýtur að koma til umræðu hér hvort ekki eigi að heimila Lánasjóðnum, eða breyta reglum Lánasjóðsins þannig að hann geti lánað nemendum fyrir skólagjöldunum vegna þessarar 40% hækkunar gjaldanna, en að gjaldtakan sé ekki undanþegin lánshæfi eins og nú er. Fróðlegt verður að sjá hvernig stjórn Lánasjóðsins bregst við þessari tæplega 40% hækkun gjaldanna.

Við hljótum að kalla eftir skýrum svörum frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra eða öðrum ráðherrum flokksins sem hljóta að sýna okkur þann sóma að vera við þessa mikilvægu umræðu, þegar um er að ræða svo verulega hækkun á einhverju sem skírt var hér í skrípaleik fyrir fyrir sex árum „skráningargjöld við ríkisháskólana“. Þetta er að sjálfsögðu hrein og klár gjaldtaka á nemendur og hlýtur að geta kallast sama nafni og aðrar slíkar gjaldtökur. Hér er ekki um að ræða raunkostnað við skráningu nema að verulega litlu leyti heldur gjaldtöku fyrir ýmsa þjónustu skólanna; þjónustu sem engu máli skiptir hvort heitir kennsla eða eitthvað annað. Rekstur skóla er rekstur skóla og þar á ekki að skilja á milli.

Ef innheimta á skólagjöld af grunnnámi í ríkisháskólunum hljóta menn að taka breiða og opinskáa pólitíska umræðu um það, t.d. hve há þannig gjöld eigi að vera og hvernig eigi að koma til móts við það. Ætla menn að lána fyrir því? Eða mæta því eftir á með einhvers konar tekjuviðmiðunum þannig að menn greiði í samræmi við tekjuöflun að námi loknu, líkt og Bretar fóru að? Þessi umræða er öll eftir. Hvort réttlætanlegt sé að gera þetta og þá hvernig. En að skella skólagjöldum á svona nánast í skjóli myrkurs og í einhverjum felu- og skrípaleik á bak við hugtök og heiti, er einfaldlega áfellisdómur. Það er ámælisvert að svo sé gert. Stjórnmálamenn og stjórnvöld eiga að hafa kjark til að taka þessa umræðu með opinskáum og rækilegum hætti. Ef þeir ætla að berjast fyrir því sem hér kemur fram, að skólagjöld í grunnnámi í ríkisháskólunum verði tekin upp, þá skulu menn segja það, leggja fram stjórnarfrumvörp þess efnis og ræða málin á þeim forsendum, en ekki í þeim blekkingarleik sem hér um ræðir.