136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:20]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst gæta skorts á skilningi hér. Ef fjölskylda sem á rándýran jeppa selur hann úr landi þarf sama fjölskylda kannski að kaupa bíl og kaupir þá bíl af annarri fjölskyldu. Þetta snýst um að hugsanlega kemst markaðurinn í gang, þ.e. ef bílar eru losaðir úr landi gæti orðið til eftirspurn innan lands. Það er mjög mikið atriði. Rándýr bíll sem fer úr landi gæti kallað á kaup á öðrum bíl hér heima.

Af því að minnst var á bílaflotann á hafnarbakkanum hugsa ég að í flestum tilvikum séu það ótollaðir bílar sem ættu ekki að tengjast frumvarpinu.

Ég vil líka undirstrika að fjármálafyrirtækin eru mjög háð því að hægt sé að gera upp bílalán og að fjölskyldur geti staðið við skuldbindingar sínar. Fjármálafyrirtækin þurfa líka að lifa og margir vinna þar svo þetta hangir allt saman. Ef spurningin er um bílaleigurnar er ferðaþjónustan mikið atriði í milliríkjafasanum sem við erum að fara í núna. Allt tengist þetta. Ef við náum að byggja undir atvinnulífið, þýðir það að við byggjum undir fjölskyldurnar í landinu. Þetta er allt samhangandi.