141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

hagvöxtur og hækkun stýrivaxta.

[10:59]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær bárust okkur þær fréttir að hagvöxtur á fyrri hluta ársins hefði verið 2,4% en ekki 3,5% eins og ráð var fyrir gert. Jafnframt fengum við þau tíðindi að Seðlabankinn mundi hækka vexti um 0,25% þannig að seðlabankavextir eru orðnir þeir hæstu á Vesturlöndum.

Ef maður skoðar fjölmiðla frá í gær þá kemur í ljós að starfsmenn Vinnumálastofnunar eru farnir að spyrja sig þegar þeir hugsa um vinnumarkaðinn: Hvert fór allt fólkið? Ljóst er að fjölgað hefur um 4.800 manns utan vinnumarkaðar. Vinnuaflinu, þ.e. starfandi og atvinnulausum, hefur fækkað um 8.400. Fækkun starfa er því í kringum 19.600 og er ekki nema von að starfsmenn Vinnumálastofnunar spyrji sig þeirrar spurningar: Hvert hefur allt þetta fólk farið? sérstaklega í ljósi þess hvernig forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa talað í fjölmiðlum góðan hluta þessa árs.

Ef litið er til fjárfestingar verður fjárfesting samkvæmt Peningamálum Seðlabankans í gær innan við 15% á þessu ári, sem er með því lægsta sem þekkist innan OECD jafnframt því sem það er langt frá því 21% sem er meðalfjárfesting á tímabilinu.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hefur hún áhyggjur af hagvaxtartölunum sem Seðlabankinn birti í gær? Er hún samþykk því að vextir hækki um 0,25%? Og að lokum: Hyggst forsætisráðherra grípa til einhverra sérstakra aðgerða vegna þessara tíðinda?