145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[13:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar ráðist er að gildum samfélags okkar er okkur nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að standa saman vörð um það góða samfélag sem reist hefur verið á þeim gildum. Hugur okkar Íslendinga er hjá fórnarlömbum glæpaverkanna í París á föstudaginn var og aðstandendum þeirra. Þau voðaverk hafa vakið undrun og skelfingu en líka kallað fram reiði í brjóstum fólks um allan heim. Hugur okkar er ekki aðeins hjá fórnarlömbunum og aðstandendum þeirra heldur líka hjá Parísarbúum og Frökkum öllum, vinaþjóð okkar og bandalagsþjóð til langs tíma, því að árásin er gerð á allt samfélag þeirra. Árásin er gerð á háa og lága, fólk af ólíkum litarhætti, með ólík trúarbrögð, af ólíku kynferði og öðrum þáttum. Þetta var árás á opið og lýðræðislegt samfélag.

Um leið og við eigum að leyfa okkur að hafa sterkar tilfinningar þegar með þessum hætti er ráðist að fólki með óskiljanlegri grimmd þá verðum við líka að hafa hugfast að reiði er engu að síður ekki góður grundvöllur til að taka ákvarðanir. Ákvarðanir um öryggi okkar og samfélagsskipan þurfum við að yfirvega vel.

Hvað þurfum við núna að yfirvega? Við þurfum að hugsa: Hvað er það sem glæpamennirnir vildu? Þegar þeir vilja skapa ótta skulum við minnast þess að við búum í einhverju öruggasta samfélagi í heiminum. Þeir vildu skapa sundrungu. Þá skulum við rækta samstöðu. Þeir vildu skapa fordóma og hatur. Við skulum þá rækta fjölmenningu og umburðarlyndi. Þeir vilja skapa lögregluríki. Við skulum styrkja hið opna samfélag. Þeir vilja vega að lýðræðinu. Við skulum efla það. Þeir vilja æsa til stríðsreksturs. Við skulum leggja þeim mun meiri áherslu á friðsamlegar lausnir. Um leið skulum við ekki ganga að því gruflandi að á öllum tímum þurfum við að taka öryggi okkar alvarlega. Við þurfum að gæta þess og verja það svo að við höldum áfram að njóta þess. Það verðum við að gera á grundvelli staðreynda með köldu mati á því hver hættan er og gæta þess að fórna ekki réttindum okkar eða lýðræðislegum árangri í því uppgjöri.

Við þurfum líka að minnast þess að við drógumst því miður inn í þessi átök þegar við vorum í hópi hinna viljugu þjóða. Við þurfum að meta öryggismál og aðra hluti í því ljósi, en ekki síst siðferðislega ábyrgð okkar á þeim úrlausnarefnum sem blasa við í þessum heimshluta. Þar höfum við nýlega náð góðri samstöðu, öll íslenska þjóðin, allir stjórnmálaflokkar hér, um að taka með myndarlegum hætti á móti fólki sem er að flýja undan þessum glæpamönnum ISIS. Það er engum blöðum um það að fletta að ISIS vill gjarnan sá frækornum efa og tortryggni í garð þess fólks sem nú flýr undan ríki þeirra til Evrópu. Einmitt þess vegna eigum við ef eitthvað er að leggja áherslu á að taka enn betur á móti þessu fólki en við vorum áður staðráðin í og gera það af enn meiri myndarskap en við vorum staðráðin í og kveða niður allar raddir um tortryggni í þeirra garð um leið og sjálfsagt er að gæta eðlilegra öryggissjónarmiða.

Þetta er sameiginlegt verkefni okkar fram undan. Ég fagna þeim skrefum sem hæstv. utanríkisráðherra lýsti hér í ræðu sinni að tekin yrðu og sömuleiðis þeirri yfirveguðu nálgun sem við höfum orðið vitni að í viðbrögðum hæstv. innanríkisráðherra við þeim atburðum sem orðnir eru.