149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Karen Elísabet Halldórsdóttir (S):

Forseti. Hv. þingmenn. Ég kem hingað upp til að ræða samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar en ég kem hingað líka sem fulltrúi Kópavogsbæjar sem ætlar að lýsa yfir afskaplega mikilli óánægju með að Arnarnesveginum, bútnum sem okkur vantar upp á í Kópavogi, sé enn og aftur frestað. Ég ber virðingu fyrir þeim fjármunum sem þarf að útdeila hverju sinni, en það er einfaldlega ekki hægt lengur að fresta þessum bút og ég ætla að segja ykkur af hverju.

Þetta er ekki týpískt kjördæmapot í mér, að ég vilji fá peninga í mitt bæjarfélag. Þetta snýst um öryggi íbúanna. Þið hér á þingi setjið ákveðinn viðbragðstíma sjúkra- og slökkviliðsbíla sem okkur í sveitarfélögunum ber að fara eftir. Á þessu svæði er stærsti skóli landsins. Á þessu svæði er einnig hjúkrunarheimili og þar erum við að tala um líklega okkar viðkvæmustu íbúa þar sem ekkert má út af bera ef eitthvað gerist.

Því er ég hér að mörgu leyti að misnota aðstöðu mína og minna ykkur á, sérstaklega ykkur sem sitjið í umhverfis- og samgöngunefnd, að breyta þeirri slæmu ákvörðun að fresta þessum vegi. Ég vil ekki þurfa að standa hér einhvern tímann síðar og benda ykkur á, „I told you so“, að eitthvað slæmt hafi komið fyrir. Ég held að ekkert okkar vilji standa í þeim sporum en það er ekki of seint að breyta þessu. Þetta er ekki há fjárhæð og ég hvet þingmenn, og alla hér inni sem hafa einhver áhrif, til að breyta þessari ákvörðun.