151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir hans innlegg hér, hann skildi ekki eftir neina sérstaka spurningu. Hann ræddi þó hallann og það hefur verið umræða um þennan uppsafnaða halla. Ég vil ítreka að við þurfum aðeins að greina og fara vel með hugtökin í þessu. Við erum að tala um uppsafnaðan halla og það er ekki krafa um að spítalinn nái tökum á þessum halla á einu ári. Það hefði þá þurft að gerast í ár, það er engin krafa um það. Þvert á móti áttum við gott samtal, nefndin við forstöðumenn spítalans, og hvöttum til þess, eins og lögin mæla fyrir um, að ráðherrann og spítalinn færu vel yfir það hver staðan væri og hvernig mætti nálgast þetta.

Nú er það svo að við höfum á þessu kjörtímabili aukið framlög að raungildi um tæplega 26%. Það hefur verið forgangsraðað til sjúkrahúsa. Það er búið að setja gríðarlega fjármuni þarna inn vegna þess að við viljum gott og öflugt heilbrigðiskerfi, og við það hefur þessi ríkisstjórn staðið. Jú, við segjum það í nefndaráliti meiri hluta að við eigum að endurskoða þessa almennu aðhaldskröfu og það gildir um allar stofnanir. Ég vil ekki vera að taka eina stofnun út og segja: Heyrðu, þetta er eitthvað viðkvæmt mál. Við verðum bara að breyta þessu. Við verðum að fara að horfa öðruvísi á þetta, horfa á aðferðafræðina við endurmat útgjalda og það verði síðan forstöðumenn stofnana en ekki við sem séum hvatinn til að ná hagræðingu í rekstri. Það eiga að vera þeir sem þekkja sinn rekstur sem segja það. Það eru þeir sem tala við sinn ráðherra og þeir eiga að segja að gera þurfi betur á þessu sviði eða öðru og leggja það svo fyrir þingið. Þá skulum við segja: Þetta er gott eða þetta er slæmt, eftir atvikum.