151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:44]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum nú reglulega átt þessi orðaskipti, ég og hv. þingmaður, við umræður um ýmis fjármálaþingmál og svörin eru öll þekkt fyrir fram. Hv. þingmaður gagnrýnir þá aðferðafræði sem notuð er til að reikna hækkun þessara greiðslna og svar mitt er: Við erum að gera það eftir þeim lögum sem um það gilda. Annað hefur ekki verið sýnt fram á. Hvort mér finnist þetta óeðlilegt — þetta er aðferðin sem við erum að nota og hefur þar af leiðandi verið stuðst við þann lagabókstaf og þá framkvæmd sem við höfum haft undanfarin ár. Við getum síðan haft hugmyndir um hvort við ætlum að binda hækkun þessara lífskjara með einhverjum öðrum hætti. Þá vil ég segja á móti: Það sem mér finnst við þurfa að átta okkur á sérstaklega varðandi eftirlaun eldri borgara er: Hvort erum við með launasamninga eða tryggingastarfsemi? Í mínum huga eru greiðslur vegna eftirlauna eldri borgara tryggingamál eða samfélagsleg trygging fyrir afkomu. Á þessu er mikill munur. En spurningin er eftir sem áður: Erum við að brjóta lögin? Er lögbrot í framkvæmdinni sem við byggjum forsendur fjárlagafrumvarpsins á, þ.e. þegar við erum að framkvæmum þetta? Ég bið hv. þingmann að svara því.