151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:48]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur komið sjónarmiði sínu vel á framfæri og rökstutt það ágætlega. Hann spyr í raun hvort við hefðum átt að víkja frá lagareglunni af því að við fórum með þessum hætti að ákvörðun vegna lífskjarasamninga. Það er í raun og veru spurningin. Svarið er í mínum huga: Það var alla vega ekki gert. Hvort við hefðum átt að gera það ætla ég ekki að segja, en við höfum farið eftir þessari reikniaðferð í 69. gr. um árabil. Henni hefur ekki verið breytt, en við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að þessa aðferð þarf að skýra. Túlkunin á henni er greinilega það víð að þessi munur skapast, sem hv. þingmaður hefur svo sem líka dregið fram í tölum í mörgum ræðum sem hann hefur flutt hér. Þannig að svar mitt er þetta: Við beitum þessari aðferð sem er eftir þessari reglu. Það er síðan annað mál og aðrar forsendur sem liggja að baki lífskjarasamningunum sem mér finnst ekki þurfa að heimfæra á annað með þessum hætti.