151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[20:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, hefur farið vel yfir sjónarmið flokksins hér í dag. Ég tek að sjálfsögðu undir þau. Þó eru nokkrir hlutir sem ég vil koma aðeins inn á. Í upphafi er rétt að minna á að fyrir heimsfaraldurinn var hafin niðursveifla í efnahagslífinu. Árin þar á undan, með fordæmalitlu vaxtarskeiði, liðu án þess að þáverandi ríkisstjórnir hirtu um aðhald, þ.e. annaðhvort að draga niður eða, það sem betur hefði verið gert, að afla tekna og nýta tækifærið til að jafna kjör landsmanna í leiðinni. Núverandi ríkisstjórn hafði heldur ekki brugðist með nógu afgerandi hætti við þeim blikum sem sannarlega voru á lofti og varað hafði verið við og sprungu kannski út með falli WOW air. Við upphaf þessarar kreppu hafði líka orðið talsverð kjaragliðnun milli venjulegs launafólks og okkar sem betur erum stæð, og þeirra sem hafa lægstu kjörin. Það skiptir miklu máli nú, einfaldlega vegna eðlis þeirrar kreppu sem við erum að glíma við, sem bitnar mjög á afmörkuðum hópum; öryrkjum, öldruðum, þeim sem missa vinnuna, og svo ef maður greinir þetta enn frekar niður, á ungu fólki, konum og fólki af erlendum uppruna.

Þá er auðvitað líka nauðsynlegt að halda því til haga, okkur öllum til varnaðar, að einsleitni atvinnulífs á Íslandi hitti okkur verr fyrir í kórónuveirufaraldrinum en flest lönd sem við berum okkur saman við. Ferðaþjónusta var t.d. tvöföld á við það sem hún er í nágrannalöndunum og því er tímabundið fall hennar einkar bagalegt. Á þetta er minnt nú af því að það skiptir höfuðmáli að eftir þessa kreppu vaxi upp fjölbreyttara atvinnulíf til framtíðar sem taki mið af nýjum veruleika, nýrri tækni og ekki síst áhugasviði unga fólksins okkar, þótt ferðaþjónustan verði auðvitað mikilvæg og dýrmæt grein fyrir okkur áfram. Hin nýja tækni, þessi stafræna tækni, tæknibylting, hvað sem fólk vill kalla hana, er einkar ákjósanleg leið að veðja á fyrir fámenna þjóð í stóru landi, langt frá mörkuðum. Slíkt gæti aukið verðmætasköpun sem er nauðsynlegt vegna breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Við gætum með henni minnkað vistspor sem er nauðsynlegt vegna skuldbindinga okkar og vegna heimsins alls og auðvitað gætum við nýtt hana og ávinninginn af henni til þess að jafna kjörin hjá fólkinu í landinu. Þess vegna vekur sérstaka furðu að hér er of lítill metnaður þegar kemur að nýsköpun og þekkingariðnaði. Það eru vissulega viðbætur en það hefði þurft að veðja sterkara á þetta. Birtingarmynd þess er t.d. nú sú að hæstv. nýsköpunarráðherra ætlar að leggja niður Nýsköpunarmiðstöðina án þess að fyrir liggi hvað kemur í staðinn. Það er óboðlegt.

Herra forseti. Einnig var tekið eftir því hvað ríkisstjórnin var svifasein í fyrstu viðbrögðum sínum til að milda efnahagshöggið fyrir fyrirtæki og fólk í landinu, a.m.k. ef horft er til nágrannalanda okkar. Verst var þó að aðgerðirnar miðuðu fyrst og fremst að fyrirtækjum, sérstaklega stórfyrirtækjum, en miklu minna var hugsað um lítil fyrirtæki, hvað þá heimilin í landinu. Eftir á má svo sem segja að sumar leiðirnar hafi verið býsna góðar. Þar var hlutabótaleiðin langbest heppnaða efnahagsaðgerð ríkisstjórnarinnar, enda var hægt að grípa til hennar með litlum fyrirvara því að hún var einmitt notuð áður af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur eftir hrun. Síðan eru ýmsar aðgerðir sem kynntar voru til sögunnar sem hafa gjörsamlega geigað eða a.m.k. ekki náð þeim árangri sem að var stefnt, t.d. komust svokölluð brúarlán eiginlega aldrei í gagnið og uppsagnarleiðin var óskiljanlegur fjáraustur sem vann beinlínis gegn hlutabótaleiðinni og hefði engum gagnast ef atvinnulífið hefði tekið við sér á haustmánuðum. Síðan eru aðrar aðgerðir eins og tekjufallsstyrkir sem komu hreinlega ekki til framkvæmda. Í vor, þegar strax blasti við að algjört hrun yrði í eftirspurn og raunveruleg hætta væri á samþjöppun í atvinnulífinu við slíkar aðstæður þegar kreppan væri búin, afgreiddi þingið frumvarp til að draga enn tennur úr Samkeppniseftirlitinu. Enn er vegið að samkeppni í landinu með ýmsum aðgerðum.

Vissulega var ríkisstjórninni nokkur vorkunn. Við stóðum frammi fyrir algjörlega óvæntum og nýjum aðstæðum sem sannarlega er ekki hægt að kenna ríkisstjórninni um. En ríkisstjórnin ákvað hins vegar strax í upphafi að leita ekki eftir samtali við stjórnarandstöðuna og ber því ein ábyrgð á aðgerðunum. Ég held, eftir á að hyggja, að hún hafi vanmetið alvarleika stöðunnar. Hún hélt að kreppan yrði skammvinnari og veirufaraldurinn myndi vara stutt og ætlaði að hagnast á því að standa ein að þessu en þar misreiknaði hún sig herfilega eins og dæmin sanna. Störf ríkisstjórnarinnar einkenndust líka af talsverðu fumi og þegar henni þóknaðist loks seint í haust að horfa á tillögur Samfylkingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar sem talað hafði verið fyrir frá því í vor, svo sem um hækkaðar grunnatvinnuleysisbætur, var tækifærið notað til að gauka einhverju líka að hópum sem sumir þurfa sannarlega ekkert á því að halda. Þar má nefna hækkun á skerðingarmörkum erfðaskatts og fjármagnstekjuskatts án þess að hækka um leið mörkin á bótum þeirra sem helst þurfa á því að halda. Kannski má segja að slík birtingarmynd afhjúpi býsna skýrt hvernig það er þegar tveir flokkar með félagshyggjutaug þurfa að togast á við einn stærri gallharðan hægri flokk. Ég held að það sé kannski reynslan af framlagningu þessa fjárlagafrumvarps.

Ég held að það sé líka alvarlegt að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin til að gefa Landspítala okkar allra eftir hallann sem hann stendur frammi fyrir. Stjórnarflokkarnir eru ekki einu sinni til í að tryggja rekstrargrundvöll Landspítalans héðan í frá, því ef ég man rétt þá munar um 1,5 milljörðum á því sem Landspítalinn gerir ráð fyrir að hann þurfi og því sem ríkisstjórnin er tilbúin til að veita til hans. Niðurstaðan er að hann neyðist sennilega til að skerða þjónustu við sjúklinga eftir áramót og mun eiga erfiðara með að vinna niður biðlista sem hafa skapast vegna kórónuveirunnar. Það er skammsýni. Eins og kom ágætlega fram í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar er þetta allt önnur leið en farin var t.d. í Bretlandi þar sem er þó hægri stjórn, þar sem þetta var núllað út, þar sem þessum halla var eytt þannig að spítalarnir gætu tekist á við ástandið sem væri fram undan, sem við vitum ekki hvað varir lengi. Þess vegna finnst mér ábyrgð þeirra þingmanna sem munu greiða atkvæði gegn breytingartillögu okkar í Samfylkingunni á morgun um aukið fjármagn til Landspítalans vera talsvert mikil. Ég minni auðvitað á að hér eru allir bundnir eigin sannfæringu og samvisku í atkvæðagreiðslum á Alþingi.

Herra forseti. Mér finnst stundum eins og ríkisstjórnin skilji ekki eðli þessarar kreppu eða vilji ekki skilja. Hún hefur a.m.k. ekki sýnt nægilega mikinn áhuga á því að beina meginþunga athygli sinnar og aðgerða að birtingarmyndinni; atvinnuleysinu. Þetta er atvinnukreppa og þungi kreppunnar leggst því miður mjög ólíkt á hópa. Um 20.000 manns hafa nú þegar misst vinnuna og við vonum að þeim fjölgi ekki mikið. Á meðan finnum við hin sem höldum vinnu ekki mikið fyrir efnahagslegum afleiðingum hennar, þó að ákveðin ónot fylgi sóttvarnahlutanum sem hittir okkur öll fyrir. Við njótum meira að segja hagstæðra tilboða á ferðum okkar um landið vegna erfiðrar stöðu í veitinga- og ferðaþjónustu. Á meðan glíma aðrir, þessir 20.000, við algjöran forsendubrest. Þetta hefur ekki einungis áhrif á einstaklingana sem missa vinnuna, þetta hefur áhrif á fjölskyldur þeirra. Þetta hittir ekki síst fyrir börnin sem búa á þessum heimilum. Engu að síður gerir ríkisstjórnin ekki áætlun um að atvinnuleysi minnki nema um 1 prósentustig á næsta ári. Það er einfaldlega allt of lítið í þeirri kreppu sem við erum að takast á við. Það er vont og það er of aumt markmið. Hugsanlega er það vegna kreddu hjá einum flokki í þessari ríkisstjórn sem má ekki heyra á það minnst að við nýtum, á sama tíma og við reynum að efla einkamarkaðinn, tækifærið til þess að laga áralanga undirmönnun hjá hinu opinbera. Þarna held ég að birtist einfaldlega aftur munurinn á þeim tveimur flokkum sem hafa félagslega taug og einhverjum prinsippföstum hægri flokki sem má ekki heyra minnst á slíka hluti.

Samfara því að ekki er gert nóg til að koma nógu mörgum fljótt í vinnu er heldur ekki nógu vel staðið við bakið á þeim sem geta ekki fengið vinnu og munu ekki fá vinnu á næstunni vegna þess að það mun taka tíma, sama hvaða aðferðum verður beitt, en við verðum að tryggja því fólki fyrirsjáanleika líka. Það þýðir ekkert að hrópa sig hásan um að við verðum að tryggja atvinnulausum fyrirsjáanleika, við verðum líka að tryggja heimilum fyrirsjáanleika. Fólk hættir ekki að borða eða að þurfa að klæða sig. Það hættir ekki að þurfa að hita húsin sín en gæti hins vegar neyðst til að hætta að leyfa börnunum að fara í tómstundir, leyfa börnunum að fara í ferðalög, kaupa nýja úlpu eða gleraugu sem brotna. Þetta er einfaldlega ekki gott. Ef við erum sammála um það hér inni að við getum ekki skilið fyrirtæki og eigendur þeirra eftir, sem þó hafa ekki æðakerfi og anda ekki og finna ekki til, er náttúrlega óskiljanlegt að við ætlum að láta fjölskyldur fara í gegnum þetta án þess að tryggja að þær verði ekki fyrir varanlegu tjóni.

Fókusinn hefur með öðrum orðum verið allt of mikið á að verja einstök hlutabréf eða kennitölur lögaðila, en allt of lítið fólk af holdi og blóði. Frá því í vor höfum við í Samfylkingunni bent á það, verkalýðshreyfingin hefur bent á það, fjöldi aðila, hagfræðinga og fleiri, hefur bent á þetta og þrýst á markvissari aðgerðir fyrir heimilin í landinu. Við lögðum fram tillögur um lengingu tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta, hækkun grunnatvinnuleysisbóta, aðgerðir fyrir námsmenn, álagsgreiðslur fyrir framlínufólk, fjármagn til að tryggja mikilvæga þjónustu sveitarfélaga, beina styrki til lítilla fyrirtækja, hærri greiðslur til eldri borgara og öryrkja, fjárfestingar í nýsköpun og grænni uppbyggingu, svo eitthvað sé nefnt. Öllum þeim tillögum, nema held ég einni, hefur verið hafnað af ríkisstjórninni. Í því birtist einfaldlega forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Ég er býsna hræddur um að við eigum eftir að súpa seyðið af því vegna þess að við vitum vel, við þekkjum það vel og við sjáum það út um allt, að aukinn ójöfnuður mun valda ómældum skaða í samfélaginu, skapa óeiningu, óstöðugleika, minnka viðnámsþrótt, stuðla að kraftlausara samfélagi og það er ekkert af því sem við þurfum á að halda núna þegar við erum búin að fá bóluefni og erum að fara að komast aftur á fætur. Á einfölduðu máli mun þetta gera líf okkar og samfélagið verra en ella.

Vissulega hefur ríkisstjórnin gert ýmislegt og hún hefur komið til móts við hópa sem veikt standa þó að ég sé á því að ekki hafi verið nóg gert. Í því ljósi er hins vegar sérkennilegt að kjaragliðnun, sem hefur verið á milli fólks á lægstu kjörunum og okkar hinna, sé að hluta til áfram leyft að vaxa kerfisbundið. Þannig óskuðu eldri borgarar eftir því að kjör þeirra hækkuðu um krónutöluna 15.750 kr. til samræmis við aðrar launahækkanir í landinu. Það er ósköp hógvær krafa, það kom mér á óvart hvað eldri borgarar voru hógværir í kröfum sínum en það er ekki einu sinni hægt að verða við því heldur hækka bætur þeirra um 3,6% eða um 9.000 kr., væntanlega í samræmi við einhverjar reiknireglur. En það er þó ekki fordæmalaust að bregðast við með öðrum hætti og það var einmitt gert eftir hrun, í síðustu kreppu, þar sem þessum hópum var sérstaklega rétt bót á kjörum sínum. Ef ég hef ekki reiknað skakkt þá mun þessi krafa, til viðbótar við það sem þó er verið að láta til eldri borgara, kosta ríkissjóð heila 2 milljarða, sem getur varla talist óyfirstíganleg upphæð í öllu því útgjaldaflóði sem við höfum verið að horfa á allt þetta ár og hefur verið að miklu leyti nauðsynlegt og það skal ekki gert lítið úr því. Það er hins vegar forgangsröðunin sem maður tekur eftir, það var ekki mikið hik á fólki þegar var verið að stilla af ýmsar aðgerðir fyrir stórfyrirtæki, fyrir flugfélög, fyrir baðstaði og ýmislegt en nei, það er ekkert eftir handa því fólki sem hefur þó byggt það samfélag sem við unum okkur flest vel í þrátt fyrir allt.

Í haust lögðum við í Samfylkingunni fram okkar leið út úr kreppunni, ábyrgu leiðina, efnahagsáætlun fyrir næsta ár, og það gerðum við í október. Ábyrga leiðin felst í því að fjölga störfum, efla velferð og leggja grunn að nýjum grænum stoðum undir útflutning og verðmætasköpun til framtíðar af því að það þurfum við líka að gera. Lykilorðin voru vinna, velferð og uppbygging um allt land. Leiðin hefði fjölgað störfum um 7.000, þrisvar sinnum meira en ríkisstjórnin leggur til, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Við lögðum líka til leiðir til að efla velferð, t.d. með því að hækka atvinnuleysisbætur, létta undir með sveitarfélögum í þröngri stöðu, sem er nauðsynlegt, sem annars neyðast til að skerða þjónustu eða að draga úr fjárfestingum sem mun rýra viðnámsþrótt ríkisstjórnarinnar í áætlun hennar. Við vildum líka ráðast gegn skerðingum til aldraðra og öryrkja og hækka bætur til almannatrygginga. Síðast en ekki síst höfum við lagt fram plan um græna uppbyggingu, áform um það sem á að taka við að þessum tíma loknum. Ólíkt ríkisstjórninni, sem birti nú á síðustu metrunum metnaðarfyllri aðgerðir í loftslagsmálum sem eru ekki fjármagnaðar, áttuðum við okkur á því að eitthvað þyrfti króinn að kosta og reiknuðum með að þær aðgerðir sem eru á svipuðum nótum og hæstv. forsætisráðherra talaði um, þótt við hefðum ætlað ívið metnaðarfyllra, kostuðu um 20 milljarða. En í það fer ekki króna í þessum fjárlögum, ef ég skil rétt, og helmingur af útgjaldaaukningu til umhverfismála fer t.d. í ofanflóðasjóð. Það er nauðsynlegt verkefni en verið er að slá ryki í augun á fólki ef því er sagt að það séu loftslagsaðgerðir.