Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Á hraðri leið til loftslagshelvítis voru orð sem hljómuðu í eyrun mínum þegar ég bjóst til að lenda í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi í síðustu viku. Ég var með Stefán Jón Hafstein í eyrunum að lesa fyrir mig Heimurinn eins og hann er. Þar fer hann yfir þá tugi milljóna sem vantar í fjárhagsaðstoð til að bjarga fólki úr sárri fátækt, að 900 milljónir manna búi við stöðuga vannæringu, hrun á vistkerfum og hvernig ósigur heimsins virðist alger í þeim markmiðum sem við höfum sett okkur, hvort sem það varðar umhverfismálin, útblásturinn, náttúruvæn hagkerfi eða heimsmarkmiðin. Það var því frekar neikvæð Bryndís Haraldsdóttir, virðulegur forseti, sem steig út úr vélinni í Sharm el-Sheikh þar sem hún sá alla ljósadýrðina og velti fyrir sér: Mun eitthvað koma út úr þessu? Er einhver ástæða til þess að fólk fljúgi hingað til Egyptalands til að tala um loftslagsbreytingar?

Virðulegur forseti. Já, það er full ástæða til þess. Vissulega hefðum við mörg hver viljað sjá stærri skref stigin. Það er auðvitað þannig, þegar þjóðir heims eiga að koma sér saman um einhver markmið, að lægsti samnefnarinn verður að markmiðinu. En það var áberandi á COP27-ráðstefnunni að það er líka jákvæðni og það eru líka lausnir. Mér fannst mun meira áberandi nú en í fyrra að atvinnulífið og vísindin, með tæknilausnir, voru meira ráðandi. Þetta voru ekki bara embættismenn og stjórnmálamenn að tala saman um markmið sem þegar höfðu verið sett og hvernig við ætluðum að ná þeim heldur var verið að kynna raunverulegar aðgerðir. Mest var þó átakanlegt að vera í bási Pakistanana og Sameinuðu þjóðanna og sjá myndbönd og heyra ræður um þær hörmungar sem dundu þar yfir í flóðunum miklu.

Virðulegur forseti. Það var bæði áhugavert og lærdómsríkt að fá að taka þátt í COP27-ráðstefnunni og þrátt fyrir bölsýnina held ég að ég geti verið jákvæð út af því að okkur miðar áfram þó að okkur ætti sannarlega að miða hraðar áfram.