136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:32]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það sé ágætt að nota þetta tækifæri og skoða samgöngur bæði á láði og legi og hef sem dæmi fjallað úr þessum stól m.a. um það að ég vilji endurskoða strandsiglingar.

Varðandi kostnaðinn af þessu fyrir ríkissjóð vil ég bara undirstrika að það er ekki sjálfgefið að þetta takist, það er ekki sjálfgefið að okkur takist að selja marga bíla úr landi út af ástandinu í kringum okkur. Kannski kostar þetta þá lítið, því miður. Ef vel tekst til þarf ríkissjóður að borga en þar með erum við líka að bjarga heilmiklum verðmætum. Það finnst mér grundvallaratriði. Ég get bara algjörlega tekið undir að við höfum misst okkur í bílainnflutningi, enda er þetta partur í að leiðrétta svolítið kúrsinn. Það eru alls kyns leiðréttingarferli í gangi núna og ég ætla ekkert að gera lítið úr því. Ég undirstrika að þetta veldur útgjöldum ef þetta tekst, en þá spyr ég hv. þingmann: Er hún samt ekki sammála því að ef hér verður mikill útflutningur á bílum megi þá reikna með að hér hefjist innflutningur af einhverjum krafti fyrr? Fær þá ekki ríkissjóður fjármagnið til baka þegar þar er komið sögu?