138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þinghaldið hefur verið mjög sérkennilegt í þinginu á liðnum dögum og satt best að segja er ekki hægt að bjóða upp á að við þingmenn mætum að morgni dags og höfum ekki hugmynd um hvort við ljúkum störfum um sjöleytið, tíuleytið, tólfleytið eða þrjúleytið. Það er miklu eðlilegra að þinghald fari fram í samkomulagi milli stjórnarmeirihlutans og stjórnarandstöðunnar. Í þessu sambandi langar mig að minna á, vegna orða hv. þingflokksformanns Björgvins G. Sigurðssonar, að stjórnarandstaðan hefur boðið upp á að gera dagskrárbreytingar og taka þau mikilvægu mál á dagskrá sem sannarlega þurfa að fara fyrir þingið og á að klára löngu fyrir jól, því fyrr því betra, og geyma umræðu um mál sem mega bíða. Ég hvet forseta til að hafa samráð (Forseti hringir.) við þingflokksformenn um dagskrána.