143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að athuga hvað hægt er að gera í fjármálaráðuneytinu til að verða við þessari beiðni til að styrkja umgjörð umræðunnar á morgun. Eins og venja er til byggir fjárlagafrumvarpið á hagspánni eins og hún kemur frá Hagstofunni. Það er ekki gerð sjálfstæð spá í fjármálaráðuneytinu og mér er ekki fullkunnugt um það hvort áhrif af breytingum á einstökum liðum landsframleiðslunnar eins og henni er spáð á næsta ári eru brotin niður í tekjuáætluninni þannig að hægt sé að svara þeirri fyrirspurn hv. þingmanns hvort minni fjárfesting í stóriðju mundi hafa bein áhrif á tekjurnar með einhverjum hætti. Mig grunar að það sé miklu frekar spáin um hagvöxt og hina meginundirliggjandi þætti landsframleiðslunnar sem mestu skipti. Þegar við horfum á nýjustu tölur fyrir árið 2013 tel ég að myndin sem við höfum fyrir framan okkur sé sú að jafnvel þó að ekki yrði af álveri í Helguvík sjáum við meiri kraft að öðru leyti í hagkerfinu á þessu ári sem muni smitast yfir á næsta ár. Fljótt á litið tel ég því ekki að ástæða sé til að hafa miklar áhyggjur.

Þess utan bendi ég á að í þjóðhagsspánni frá 15. nóvember 2013 segir Hagstofan að gert sé ráð fyrir því að framkvæmdir í stóriðju verði í hámarki á árinu 2015 og 2016 í Helguvík en ekki á árinu 2014.