144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í Kastljósi gærkvöldsins var áframhaldandi umfjöllun um stöðu fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og túlkaþjónustu þess. Þar kom fram að hæstv. menntamálaráðherra hafði ekki séð umfjöllun Kastljóss í fyrradag en hann sagði að það væri pólitísk ákvörðun að tryggja fjármagn í túlkasjóði og hana þyrfti að taka með fagaðilum.

Þótt fagaðilar séu frábærir og iðulega mjög færir í starfi sínu eru þeir ekki einu sérfræðingarnir í málefnum fatlaðs fólks. Fatlað fólk sjálft er nefnilega mjög oft mestu sérfræðingarnir í eigin málum og hafa bestu og víðtækustu þekkinguna. Við stjórnmálamenn verðum að hlusta á hvað fatlað fólk hefur að segja um sína eigin stöðu og að því sögðu vil ég vitna í skrif Snædísar Ránar Hjartardóttur sem hún setti inn á facebook-síðu sína í kjölfar Kastljóssþáttarins í gær, en hún er einmitt stjórnarkona í Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Með leyfi forseta:

„Það er ekki neins að ákveða hverjir eiga rétt á túlkun umfram aðra, það má aðeins skipuleggja þjónustuna þannig að allir sem þurfa fái sinn sanngjarna skerf. Hvað fjármunina varðar þá er spurningin frekar hvernig við skiptum samfélagslegum gæðum milli okkar, hvort vegur meira þjónusta sem stuðlar að eðlilegri og sjálfsagðri þátttöku í samfélaginu eða munaði sem hugsanlega á rétt á sér en er kannski ekki nauðsynlegur. Ég segi bara fyrir mig að ég er ekki tilbúin að lifa í búri þar sem allar pantanir til Samskiptamiðstöðvar lenda í einhverja forgangsröð sem á víst eftir að valda því að ég eigi bara rétt á sumum útgáfum af samskiptum við annað fólk!“

Ef þetta er ekki sjónarhorn sem við hér inni eigum að taka tillit til (Forseti hringir.) og góð þekking á eigin stöðu og hvernig maður getur lifað innihaldsríku lífi í samfélaginu (Forseti hringir.) þá veit ég ekki hvað ætti að vera það.