149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Glötuð tækifæri og engin frávik, en samt frávik upp á 1 milljarð fyrir öryrkja. Það tel ég vera einhver frávik. Fjárlög hinna tómu loforða, myndi ég vilja kalla þetta frumvarp, þar sem ríkisstjórnin biður um pening en útskýrir ekki af hverju. Þar sem milljörðum er lofað, fleiri milljörðum en staðið er við.

Uppbyggingarverkefnið eftir bankahrunið er stórt, það er augljóst öllum. Það vantar í alla málaflokka eftir niðurskurð hrunáranna. Við skuldum í viðhaldi og uppbyggingu samfélagslegra innviða í samgöngum, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, félagsmálum, húsnæði og siðferði. Við borgum ekki þær skuldir niður í þessum fjárlögum. Við erum kannski að halda í við vaxtakostnaðinn, en það er samt erfitt að segja til um það þar sem við fáum ekki greiningar í þá veru. Við borgum hins vegar niður peningaskuldir af því að þar sjáum við vaxtakostnaðinn. En ósýnilegur vaxtakostnaður samfélagslegra innviða heldur hins vegar áfram að naga hælana á okkur. Kostnaður sem étur samfélagið upp að innan og brýst út í vantrausti, harðri kjarabaráttu og veikindum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)